149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki fyrri hluta ræðu hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar en ég heyrði seinni hlutann af henni og mér fannst hún svo góð að það hvarflaði að mér að tala bara ekkert um þetta mál sjálfur. Hann útlistaði eiginlega allt sem mér fannst mikilvægast að koma á framfæri, sem er það að íslenska tungan er lifandi mál og sér í lagi er mikilvægt þegar við leitum leiða til að viðhalda henni og efla hana að við gerum það ekki með einhvers konar málhroka. Við eigum að leyfa fólki að tala eins og því sýnist. Við verðum að sýna því ekki bara umburðarlyndi heldur eigum við hreinlega að vera spennt fyrir því. Það er jákvætt að fólk leiki sér með málið. Það er mjög jákvætt að ungt fólk sérstaklega finni upp ný orð og beiti málinu öðruvísi. Kannski finnst manni ekkert gaman að heyra íslenskt mál breytast til samræmis við enska tungu. En það er nú stundum þannig, þetta eru hvort tveggja germönsk mál að ætt og þetta er eðlilegt að verulegu marki. Jafnvel þótt það sé slett breytast samt sem áður sletturnar með tímanum, eins og orðið sjoppa sem þýðir ekki það sama og „shop“ á ensku lengur. Það þýðir næstum því það sama eða er mjög svipaður hlutur en þýðir ekki það sama. Sjoppa er mjög íslenskt orð, finnst mér núna. Mér finnst það ekki vera sletta. Það þýðir tiltekinn og að mínu mati mjög íslenskan hlut. Þegar ég bjó í Kanada fannst mér sjoppur þar ekki vera eins og íslenskar sjoppur. Þær voru öðruvísi, voru meira búðir. En það er útúrdúr.

Mig langar líka að fara aðeins yfir tæknimálin og hvernig við getum hugsanlega bjargað íslenskri tungu. Ég er reyndar mjög vongóður þessa dagana vegna þess að mér finnst Alþingi hafa brugðist mjög vel við. Það er sameiginlegur metnaður á Alþingi og í samfélaginu fyrir því að gera það sem gera þarf sem þýðir að setja fjármagn til verkefnisins og það hefur verið gert. Maður sér metnaðinn í t.d. þeirri ágætu tillögu sem við ræðum núna. Ég er því bjartsýnni en ég var lengi á að íslenska tungan lifi af 21. öldina.

Það er eitt sem við þurfum svolítið að átta okkur á, sem er ekkert gaman að viðurkenna upphátt, og það er að íslensk tunga er ekki sérlega gagnleg við hliðina á enskri tungu þegar kemur að því að sanka að sér upplýsingum og þekkingu. Það er bara þannig. Einfalda ástæðan er sú að enskan er yfirþyrmandi gagnlegasta málið, að mínu mati, þegar maður sækir sér upplýsingar vegna óheyrilegs fjölda þeirra sem tala hana.

Það er líka annað áhugavert við enskuna. Ótrúlegt en satt er enskan pínuáhugavert mál. Virðist ekki vera það í fljótu bragði en er reyndar ótrúlega furðulegt mál. Eitt af því skrýtna við það er að þrír fjórðu þeirra sem tala ensku tala hana sem annað mál. Það er mjög mikill minni hluti enskumælandi fólks sem talar ensku sem móðurmál. Þessu er vitaskuld ekki bara öfugt farið með íslensku heldur tala næstum því allir sem tala íslensku hana sem móðurmál. Það eru mjög fáir hlutfallslega sem tala íslensku sem annað mál, alla vega þannig að reiprennandi sé. Ég hugsa að flestir hér inni eða mjög margir myndu teljast tala reiprennandi ensku en að tala reiprennandi íslensku er heljarinnar verkefni fyrir einhvern sem hefur annað mál að móðurmáli.

Vegna þess að enskan er miklu gagnlegri finnst mér hollt að rifja upp hvers vegna við viljum halda í íslenskuna. Ein ástæðan er einfaldlega rómantík. Ég aðhyllist það sjálfur persónulega. Mér finnst það allt í lagi ástæða. Það er líka mikilvægt að við höldum í íslenskuna, að mínu mati, af vísindalegum ástæðum. Þó að íslenskan sé í rauninni þegar allt kemur til alls enn eitt germanska afbrigðið, norðvesturgermanskt afbrigði í mannlegu tungumáli, viðheldur hún samt sem áður ýmsum hlutum sem eru annaðhvort horfnir eða á leiðinni burt úr öðrum málum. Eitt af mínum uppáhaldsfyrirbærum í íslenskri tungu er viðtengingarhátturinn. Ég tek eftir því að margir nú til dags eru hættir að nota viðtengingarhátt. Ég veit ekki alveg hvenær það gerðist, hvort það hafi alltaf verið þannig. Hann þykir flókinn. Þetta er oft það sem fólk setur fyrir sig þegar það lærir spænsku, þar er viðtengingarháttur og reyndar fleiri hættir. Spænska er mjög einfalt mál en flókni hlutinn af því er sagnirnar. Í spænsku er að finna t.d. viðtengingarhátt framtíðar sem er mjög sérstakt fyrirbæri fyrir einhvern sem talar íslensku eða mér finnst það alla vega stórfurðulegt. Svo er náttúrlega engin framtíð í íslensku. [Hlátur í þingsal.] Maður á kannski ekki að orða það þannig, en það er ekki til tíðin framtíð í íslensku máli. Það eru meira að segja til orð sem ég myndi helst vilja taka frá einhverju öðru máli og búa til upp á nýtt. Eins og orðið senda sem er sendi í þátíð og nútíð, þar af leiðandi í framtíð í íslensku, og er eins í viðtengingarhætti, sem er óþolandi. Þegar maður notar þetta orð veit maður aldrei hvort það er verið að senda núna eða verður sent seinna eða var sent í gær eða hvað. Mér finnst þetta vera galli.

Það er hins vegar skemmtilegt við íslenska tungu og flókin mál eins og íslensku sem bögglast með þrjú kyn, fjögur föll og alls konar hætti og guð má vita hvað og veikar beygingar á lýsingarorðum. Af hverju? Af hverju þarf veikar og sterkar beygingar á lýsingarorðum? Þetta er í raun og veru frekar gagnslaust ef maður pælir í því. En þetta er skemmtilegt og mér finnst það vísindalega áhugavert viðfangsefni að viðhalda íslenskri tungu á 21. öldinni og nota stafræna tækni, að fá tölvurnar til að skilja ekki bara tungumálið þegar það er talað við þær heldur til þess að hanna t.d. forrit sem getur gert greinarmun á kyni og sagt „þrjár nýjar umsagnir“ en líka „þrjú ný frumvörp“. Vel á minnst, ég er að skrifa forrit sjálfur til að aðstoða mig við þingstörf þar sem ég hef þurft að kljást við nákvæmlega þetta vandamál.

Þá finnst mér svo mikilvægt að íslenskir foreldrar og foreldrar almennt hafi það í huga að tungumál eru frábrugðin. Þau virka ekki öll eins. Það fer afskaplega mikið í taugarnar á mér þegar einhver skrifar forrit og það er hægt að þýða það en það er gert ráð fyrir t.d. enskri orðaröð. Talan er þá alltaf á undan orðinu en ekki á eftir því eins og væri í öðru máli. Það eru til leiðir fram hjá þessu og þýðingartækni er hægt að nota til að búa frekar vel að íslensku en þá þarf að kunna að nota hana þannig. Mér finnst áhugavert vísindalegt verkefni að fá forrit til að skilja og segja þrjár nýjar umsagnir og þrjú ný frumvörp, nota kyn nafnorða sem eru náttúrlega almennt ekki notuð í málum eins og á ensku en eru notuð t.d. í spænsku sem er annað mest talaða móðurmál í heiminum og ég mæli með að fólk læri vegna þess að það er líka stórskemmtilegt mál.

Önnur ástæðan fyrir því að við ættum að halda í íslenska tungu eftir fremsta megni er til að við skiljum söguna. Ég hef notið þeirra forréttinda að hafa búið í tvö og hálft ár í Kanada, í Winnipeg, Manitoba nánar tiltekið. Þar eru töluð tungumál innfæddra, sem kallast fyrstu þjóðirnar, eins og Cree, Ojibwe og Oji-Cree og slík mál og þau eru næstum því útdauð. Það eru mjög fáir sem tala þessi mál. Það sem mér fannst svo sorglegt að sjá var að ef maður rakst á einhvern af eldri kynslóðinni, ég kynntist t.d. þarna konu, sem er reyndar fallin frá núna, enda fékk hún að lifa þokkalega lengi, sem leið illa þegar maður spurði hana of mikið út í tungumálið. Maður vildi vita hvernig maður segði hitt eða þetta og hún rifjaði það upp og sagði manni það kannski en svo vildi hún ekki tala um það mjög lengi. Það var náttúrulega vegna þess að hún var af kynslóð þar sem það var bókstaflega og beinlínis barið úr börnunum að tala móðurmál sitt. Þau urðu af svo miklum hluta af menningu sinni. Svo hittir maður unga fólkið sem er með kannski ákveðinn húmor tengdan fyrstu þjóðinni, þau eru kannski með fyrstuþjóðartengdar setningar, með einhvern vísi að heimspeki þeirra, en maður sér tengslaleysið við fortíðina, við einkenni sín. Við höfum ekki þetta tengslaleysi hér. Við höfum mjög sterk tengsl við uppruna okkar og sögu. Við skiljum rosalega vel hvaðan menningarlegir hlutir sem við kljáumst við í dag koma og hvers vegna þeir eru eins og þeir eru. Þeir eru ekkert endilega alltaf frábærir en við vitum hvaðan þeir koma og við vitum hvernig á að meta þá. Fyrir vikið getum við betur tekist á við alls konar hluti í okkar menningu sem við viljum kannski breyta. Kannski viljum við ekki breyta þeim af því að okkur þykir vænt um þá. Til dæmis myndi ég vilja breyta því sem er kallað matargerð, mat sem á víst að heita lostæti en mér finnst ekki. En það er gott að halda upp á það ef fólki finnst gaman að því.

Þetta er önnur ástæðan fyrir því að við ættum að halda í íslenskuna, til þess að halda í sögu okkar, skilning okkar á sögunni vegna þess að það er úr henni sem íslensk nútímamenning kemur og til að skilja íslenska nútímamenningu og vera í góðum tengslum við hana og okkur sjálf þurfum við að skilja söguna.

Þessar ástæður duga mér, hver þeirra ein og sér myndi duga mér og þegar allar eru komnar saman finnst mér það engin spurning að við eigum að leggja okkar af mörkum í þetta verkefni jafnvel þótt gæti, ef maður ætti að horfa á það algjörlega og einvörðungu út frá praktísku sjónarmiði, í fljótu bragði virst vera tilgangslaust eða einungis byggt á rómantískum forsendum. Ég vil meina að svo sé ekki.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti, vísa bara aftur í stórgóða ræðu þess ágæta hv. þingmanns sem talaði á undan mér og getur sparað hlustendum restina af tímanum.