149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

463. mál
[15:54]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Við greiðum atkvæði, virðulegur forseti, um sameiginlega tillögu vestnorrænu ríkjanna Íslands, Færeyja og Grænlands. Tungumálin okkar eiga undir högg að sækja, eru undir áhrifum frá ensku aðallega. Íslendingar hafa þróað með sér jafnvel verkfæri eða eru komnir vel á veg að því leyti að þróa verkfæri í þeim stafræna heimi sem við okkur blasir. Það er álitamál hvort Íslendingar sem stóri bróðirinn í þeim félagsskap geti ekki lagt sitthvað af mörkum því að öll þessi lönd, Ísland, Grænland og Færeyjar, hafa áhyggjur af framtíð tungu sinnar. Hér er lagt til að skipaður verði lítill vinnuhópur fagfólks til að ganga úr skugga um það hvort ekki sé hægt að ná sameiginlegum árangri.