149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

málefni SÁÁ.

[10:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Jú, þetta er eitt af því sem er til skoðunar varðandi lyfjamálin. Það er alveg ljóst að við verðum að ná miklu betur utan um þann málaflokk. Við erum ekki ein í þeirri stöðu, þ.e. Íslendingar, heldur er þetta viðfangsefni sem verður sífellt meira krefjandi eftir því sem tímanum vindur fram í löndunum í kringum okkur líka. Við sjáum t.d. ítrekaðar fréttir frá Finnlandi um lyfjaskort og kostnaður ríkjanna í kringum okkur eykst mjög frá ári til árs, sérstaklega að því er varðar dýrustu og flóknustu lyfin. Við þurfum að ná miklu betur utan um þetta en við höfum gert. Það var ánægjulegt að geta sagt frá því að við vorum að ná fyrsta skrefinu í því að geta farið í sameiginleg lyfjaútboð með Norðmönnum og Dönum á dögunum, sem er viðleitni til að ná verðinu niður, til að stilla saman strengi með öðrum. Það hefur lengi staðið til að reyna að gera það.

Ég vil loks taka fram að ég vænti þess að þessir peningar komist fljótt í vinnu fyrir SÁÁ og þá góðu starfsemi sem þar fer fram. Ég mun beita mér í þá veru.