149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

rammaáætlun.

[10:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í dag að beina orðum mínum til hæstv. umhverfisráðherra í tengslum við rammaáætlun. Um nokkra hríð hefur legið fyrir beiðni í umhverfisnefnd um að hæstv. ráðherra heimsæki nefndina og fari yfir stöðu mála því að framlagning uppfærðrar áætlunar var á þingmálaskrá. Það liggur fyrir að verkefnisstjórnin hefur skilað fyrir þó nokkru en ekkert bólar á málinu í uppfærðum búningi. Verður óneitanlega áhugavert að sjá hvort ráðherra ætli sér að gera einhverjar breytingar á tillögu verkefnisstjórnarinnar eða hvort ráðherra sjái fyrir sér að leggja þær tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar. En það sem mig langar til að forvitnast um hjá hæstv. ráðherra í dag er svarið við spurningunum: Hver er staðan á þessari vinnu? Hvenær má þingið vænta þess að fá upplýsingar um hvernig málinu vindur fram? Sér ráðherrann fyrir sér breytingar á framlögðum tillögum verkefnisstjórnar? Í fyrri umferð ætla ég að láta þetta duga sem spurningar til hæstv. ráðherra.