149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

niðurskurður til mennta- og menningarmála.

[10:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í mars sl. var kynnt í þessu húsi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um fyrirheit um hin ýmsu útgjöld ríkisins. Núna, einungis rúmum tveimur mánuðum seinna, koma fram breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna sem lækka þessar upphæðir umtalsvert á mjög mikilvægum og viðkvæmum sviðum.

Hér þarfnast ýmislegt skýringa. Vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra um málaflokka hans sem eru ansi mikilvægir. Ég tek fram að þessar tölur eru frá ríkisstjórninni.

Hvernig stendur á því að nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem eldri tillaga fjármálaáætlunar hafði gert ráð fyrir? Hvernig stendur á því, herra forseti, að framhaldsskólar fái 1,8 milljarða kr. lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun? Það sem meira er: Hvernig stendur á því að heildarframlög til framhaldsskóla lækka beinlínis næstu fimm árin þrátt fyrir loforð um að svokallaðir styttingarpeningar ættu að haldast og allt tal um menntasókn? Heildarframlagið lækkar ef við berum saman 2019 og 2024. Hvernig stendur á því, herra forseti, að menning, listir, íþróttastarf og æskulýðsmál fá um 9% lækkun á heildarframlögum árin 2019–2024?

Að lokum vek ég sérstaklega athygli á því að háskólastigið, ef LÍN er tekið frá eins og er gert í upprunalegri fjármálaáætlun frá því í mars sl., fær svipaða upphæð árið 2019 og 2024. Það er þvert á tal ráðherra um stórsókn á þessu sviði og skýrt loforð í stjórnarsáttmálanum um mikla aukningu til háskólanna. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Hvað er eiginlega í gangi?