149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu.

[11:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hv. þingmaður þekkir vel þá stefnu sem hefur verið fylgt og það sem ríkisstjórnin setti á laggirnar og við höfum aukið útgjöld verulega á fyrstu tveimur fjárlagaárum ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður og flokkur hans hafa gagnrýnt að gengið hafi verið of langt á meðan aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar hafa beinlínis hvatt til að gengið sé enn lengra í útgjöldum.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð var hún m.a. mynduð um það að verulegar fjárfestingar vantar í innviði, einfaldlega vegna þess að við týndum mörgum árum eftir hrunið. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þrátt fyrir að við höfum sett svona miklar fjárfestingar í gang, m.a. í fjárfestingu, er fjárfestingarstigið hjá hinu opinbera ekki nógu hátt. Við þurfum að leita leiða til þess á næstu árum að geta haldið áfram að auka fjárfestingu, m.a. til að ýta undir jákvæðar hagspár og efnahagslífið og atvinnulífið.

Við settum einfaldlega á borðið, alveg eins og þegar menn ganga til kosninga, það sem við höfðum boðað fyrir kosningar og höfum staðið okkur gríðarlega vel í því.

Það er rétt að fjármálaráð hefur gagnrýnt síðustu tvær fjármálaáætlanir, að menn hafi skilið of lítið eftir, það hafi verið of lítið borð fyrir báru, en ég get ekki verið sammála því að ekki séu eðlilegar ástæður til að endurskoða fjármálastefnuna. Ef við lesum fyrstu setningarnar í hagspá Hagstofunnar segir að þetta séu stærstu breytingar frá í það minnsta árinu 1992 eða 1988 og þess vegna fullkomlega eðlilegt að koma hingað inn með breytingar. Núna er þó svigrúm (Forseti hringir.) í fjármálastefnunni miðað við fjármálaáætlunina. Ég veit að umræðan í þinginu hefur verið um hvort það sé nægjanlegt. Það verður að koma í ljós.