149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[11:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vildi samt fá að skilja hér eftir nokkur atriði til umhugsunar. Ég held að almennt eigum við að horfa til þess að hafa skattkerfið einfalt, skatta hóflega og gegnsæja. Það er góð meining í þessu máli eins og öllum öðrum málum þar sem ætlunin er að taka afmarkaða þætti út úr hinum almennu viðmiðum, hvort sem um er að ræða virðisauka eða annan skattstofn. Það eru ýmsar vörur sem ungir nota miklu meira en gamlir eða gamlir nota miklu meira en ungir, konur og karla þekkjum við, dreifbýli andspænis þéttbýli — það eru alls konar svona atriði í þessu sem nýtast sem rökstuðningur fyrir afmörkuðum breytingum hverju sinni.

Ég held að við eigum að einsetja okkur að reyna að hafa kerfið eins einfalt, gegnsætt, sanngjarnt og samkvæmt sjálfu sér, ef svo má að orði komast, og hægt er.

Þetta var allt og sumt sem ég vildi nefna í þessu samtali. Ég vildi bara benda á það augljósa, að það eru miklu fleiri þættir sem gætu orðið rökstuðningur fyrir því að breyta skattareglum eins og þessum; karlar/konur og dreifbýli/þéttbýli, gamalt fólk/ungt fólk og þannig mætti lengi telja. Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta að sinni en mér sýnist þeim fjölga örlítið.