149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta því að ég ætlaði einmitt að koma inn á tryggingarnar í framsöguræðu minni. Ég hef kannað það og það liggja alveg skýr gögn og dómaframkvæmd fyrir því að til þess að skerða tryggingabætur þarf viðkomandi að sýna af sér stórfellt gáleysi. Það að 16 ára unglingur noti ekki reiðhjólahjálm mun seint teljast til stórfellds gáleysis, þar getum við skoðað dómaframkvæmd varðandi beltisnotkun, hraðakstur og annað slíkt. Ég get upplýst hv. þm. Björn Leví Gunnarsson um að þetta er atriði sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af. Ég hef kannað það og haft samband við tryggingafélögin hvort þessi skilningur minn sé réttur og svo var sagt.

Varðandi upplýsingaöflunina var í meðförum þessa máls og frumvarps til umferðarlaga var alltaf talað í nefndinni um samræmi í skóla. Það var atriði sem við ræddum að væri augljóst vandamál sem þyrfti að taka á, að það væri ekki samræmi milli skóla um aldur, hverjir þyrftu að nota hjálma og hverjir ekki. Allir voru sammála um að hjálmanotkun væri mikilvæg. Umræðan í kringum þau sjónarmið sem komu um það hvaða áhrif hjálmaskyldan hefði tengist hugsanlega framhaldsskólunum en helst þeim sem eru yfir 18 ára sem eru komnir með bílpróf og hafa úr fleiri samgöngumátum að velja. Ég tel að við séum að fara mjög varfærnislega leið hér til að ná samræmi til að auka umferðaröryggi og tryggja þá menningarlegu breytingu að hjálmur sé öryggistæki líkt og öryggisbelti eru.