149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli framsögumanns nefndarálits umhverfis- og samgöngunefndar að hann hefði farið í gegnum tryggingaskylduna varðandi ábyrgð þeirra sem sakaðir eru þegar kemur að 16 ára aldurstakmarki og hann fengið fullvissu um að það væri engin áhætta gagnvart þeim aldurshópi varðandi þau áhyggjuefni sem hv. þingmaður reifaði í ræðu sinni áðan. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að þetta væri — jú, það er komið fram í þingræðu að þetta sé svona. En ég hefði viljað hafa það í höndunum, skriflegt frá sérfræðingum eða þeim sem eru færir um að setja slíkt á blað, í staðinn fyrir í þingræðu. En það er ákveðin ábyrgð að setja það fram í þingræðu sem fullyrðingu um hvort það haldi eða ekki. Og ef hv. þingmaður hafði áhyggjur af tryggingaábyrgðinni upp í 18 ára, og hún er þá enn upp í 16 ára, og tengt þessari fullvissu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar áðan í andsvari, hvort það haldi og slái á þær áhyggjur hv. þingmanns?