149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þeir sem eru að hjóla eru iðulega að gera slíkt úti í umferðinni. Þetta snýst ekki endilega um það að þú veltir einhvers staðar, þú dettir eins og er í fjallgöngum, heldur gerast slysin iðulega við það að ekið er á viðkomandi. Bifreið er ekið á hjólandi vegfaranda sem skellur í götuna og þá er gott að hafa hjálm á höfðinu.

Skilaboðin sem löggjafinn sendir krökkunum eru skýr. Mér finnast skilaboðin vera kolröng þegar við látum eins og það sé kvöð að vera með hjálm í staðinn fyrir að þetta sé vörn, að þetta sé sjálfsögð vörn, þannig að við séum að leysa þau undan þessari kvöð þegar þau komast í 10. bekkinn, í efsta bekk grunnskóla. Það finnast mér einmitt vera kolröng skilaboð frá löggjafanum.