149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir framsöguræðuna. Ég er með fyrirvara á þessu nefndaráliti og kem inn á hann í ræðu á eftir, ætla ekki að eyða knappt skömmtuðum tíma andsvara í það. En mig langaði koma inn á punkt sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu áðan sem snýr að þeirri afstöðu þingmannsins að auðvitað ætti að telja flug og álframleiðslu og þess háttar undir heildarútblástur á hvern einstakling, „per capita“, með leyfi forseta.

Í því samhengi langar mig að spyrja þingmanninn, af því að mér heyrðist fyrsta andsvar fara í þá átt að reyna að fókusera á hvar væri hægt að ná árangri og hvar mest skipti máli að setja orkuna: Telur hv. þingmaður að til að mynda „transit“- farþegar sem koma bara við í Leifsstöð og halda síðan áfram vestur um haf eða til Evrópu eftir atvikum skipti máli til að ná fram raunhæfu mati á árangri? Ef það er staðan gef ég mér t.d. að gjaldþrot WOW hafi haft alveg stórkostleg áhrif í því samhengi að meta losun á hvern einstakling á Íslandi. Við erum í þeirri stöðu að vera þegar að endurmeta fjármálastefnu ríkisins vegna þess.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns: Eigum við að vera að fókusera á þetta? Er ekki eitthvað annað sem við getum sett orkuna í að reyna að greina og meta og ná árangri með? Þetta ágæta fólk mun bara fljúga með einhverjum öðrum ef ekki með íslenskum flugfélögum.