149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Jú, það er rétt. Hér er kveðið á um að ráðherra láti reglulega vinna vísindalegar skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Það er alveg ljóst að breytingar á loftslagi verða líka breytingar á samfélagi, samfélagsvenjum okkar, neysluvenjum, ferðavenjum, umferðarvenjum.

Loftslagsbreytingar munu líka þýða breytingar á landbúnaði og grundvallaratvinnugreinum okkar eins og sjávarútvegi. Það er skýringin á því af hverju samfélagið kemur hér inn, og er það vel. Það er vel vegna þess að akkúrat með þessari setningu þá er það viðurkennt að loftslagsbreytingar eru ekki bara umhverfisbreytingar heldur líka samfélagslegar breytingar sem við þurfum að rýna og skýra og ræða.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmannsins um stofnanir ríkisins, hvort eitthvað sé kveðið á um stærð þeirra o.s.frv., þá er það ekki í frumvarpinu og því var ekki heldur bætt við í nefndaráliti meiri hlutans. Ef maður les anda laganna held ég að það hljóti að vera almennur skilningur laganna að hér er ekki átt við eins eða tveggja manna vinnustaði sem heyra undir hið opinbera heldur frekar hina stóru yfirbyggingar og stofnanir sem þurfi að setja sér loftslagsstefnu og áætlanir. Það kom líka fram í máli ráðherrans, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að Umhverfisstofnun hefur fengið eyrnamerkt fjármagn til að aðstoða við gerð þessarar áætlunar, og þar mun alla vega eitt stöðugildi verða til þess fallið að vinna þessar áætlunargerðir með stofnunum í opinberri eigu.