149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála því sem kom fram síðast í máli hv. þingmanns. Einstaklingar geta ekki borið allar þessar byrðar sjálfir heldur verða hinir stóru aðilar, og þar með talið hið opinbera og fyrirtækin, að sýna gott fordæmi og taka þetta líka á sig, þ.e. ábyrgðina á því að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Ég minnti á það, í fyrra andsvari til hv. þm. Bergþórs Ólasonar, að sænska ríkisstjórnin hefur sett á svokallaðan flugskatt, við mikla tímabundna óánægju flugfélaganna að sjálfsögðu, í því sjónarmiði að þau axli enn frekari ábyrgð þegar kemur að umhverfismálum og loftslagsbreytingum.

Varðandi einstaklinga í atvinnurekstri kemur það fram með reglugerðinni sem ráðherra kveður á um hvaða aðilum ber skylda til að skila því. Ég treysti því að það verði með sanngjörnum og góðum hætti af hálfu ráðherra. Ég hvet hv. þingmenn til að fylgja því eftir og fylgjast með því að þær reglugerðir séu vel úr garði gerðar.