149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í skýrslu frá starfshópi sem var settur saman vegna þingsályktunartillögu Pírata um endurskoðun á vímuefnastefnu var ein tillaga um að vímuefnaakstur yrði ekki lengur skilgreindur þannig að niðurbrotsefni í þvagi teldist brot á lögunum, teldist vímuefnaakstur, enda fráleitt ef spurður er nokkur sérfræðingur um efnið og í reynd mannréttindabrot þar sem fólk var dæmt fyrir brot sem það sannarlega hafði ekki framið og óumdeilt var að það hefði ekki framið.

Það er skilgreiningaratriði í lögunum, það var einfaldlega skilgreint þannig að það væri vímuefnaakstur að vera með niðurbrotsefni af vímuefnum í þvagi, sem þýðir ekki að maður sé í vímu, þýðir hugsanlega að maður reykti gras fyrir einhverjum dögum eða vikum.

Þetta var lagað í þessu frumvarpi en hér liggur fyrir breytingartillaga á þskj. 1771 sem ég hvet alla þingmenn til að mótmæla og greiða atkvæði gegn en hún felur í sér að gera þessa jákvæðu breytingu (Forseti hringir.) afturreka.