149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er, eins og hv. þingmaður, aðeins hugsi yfir fyrri partinum af því frumvarpi sem hér er lagt fram. Nú blandast engum hugur um að loftslagsmál eru viðvarandi verkefni og hefur aldrei verið jafn áríðandi og nú að bregðast við.

Nú höfum við haft um nokkurra ára skeið, líklega frá árinu 2016, loftslagsráð. Sem er, eins og segir hér í 3. gr. og á bls. 2 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Starfrækja skal loftslagsráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.“

Með frumvarpinu er boðuð sérstök verkefnisstjórn sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd. Ég velti bara fyrir mér: Er þetta ekki sama verkefnið?

Og í öðru lagi: Við höfum hér Umhverfisstofnun, mjög sterka og öfluga stofnun, sem hefur verið efld mjög rækilega undanfarin ár og á að hafa eftirlit með loftgæðum o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skilið þetta, því að ég skildi þetta ekki alveg. Er það verkefnisstjórnin sem hefur þá eftirlit með loftslagsráði sem hefur aftur eftirlit með ríkisstjórninni? Eða er því alveg þveröfugt farið?

Ég velti líka fyrir mér hvort annaðhvort verkefnisstjórnin sé þá að taka verkefni frá Umhverfisstofnun og/eða sé einhver yfirfrakki á þá stofnun, ásamt jafnvel loftslagsráði.

Þar sem ég skil þetta ekki alveg svona við fyrstu sýn langaði mig til að athuga hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir þessu og hvort hann hefur mótað sér skoðun á því hvernig þetta virkar allt saman og vinni saman.