149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er reyndar líka annað sem ég hef aðeins velt fyrir mér, einmitt vegna þess sem hv. þingmaður sagði um að moka ofan í skurði: Nú hefur maður svo sem heyrt mismunandi sjónarmið um hvort það virkar eður ei. Spurningin er þessi: Þekkir hv. þingmaðurinn rannsóknir sem liggja að baki þeim staðhæfingum að það að moka niður í skurði komi í veg fyrir kolefnislosun?

Og þá hefur maður einkum heyrt af því að nú eigi að moka aftur ofan í eldri skurði, sem þegar hafa losað mikið af kolefni, til að búa til nýjar mýrar sem losa svo aftur meira kolefni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við að hafa séð eða heyrt af rannsóknum sem styðja þessa kenningu um að moka niður í skurði.