149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum síðan sá ég í sjónvarpi viðtal við erlendan ferðamann, unga konu, sem stóð á Hakinu og horfði yfir vellina og vatnið agndofa yfir fegurðinni en sagði við fréttamann aðspurð að hún hefði viljað fá að njóta þessa augnabliks ein. Auðvitað skil ég það sjónarmið mjög vel en þessi unga kona hafði keypt sér ferð til Íslands með skemmtiferðaskipi, einu því stærsta í heiminum, 3.000–4.000 farþegar, á háannatíma og hafði greinilega ekki áttað sig á því að hún myndi ekki fá að njóta Þingvalla alein.

Eins og kemur fram í frumvarpinu sem við ræðum hér og í nefndarálitinu, hefur á síðastliðnum árum ásókn fólks í þjóðgarðinn á Þingvöllum vaxið í samræmi við fjölgun ferðamanna til Íslands en þjóðgarðurinn er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Með leyfi forseta:

„Einkum er bent á að samhliða þessari fjölgun gesta hefur færst í aukana að gestir þjóðgarðsins sæki í að njóta afþreyingar innan þjóðgarðsins. Til þess að geta fullnægt verndarmarkmiðum þjóðgarðsins þykir flutningsmönnum nauðsynlegt að mæla fyrir um að atvinnurekstur geti einvörðungu farið fram innan þjóðgarðsins á Þingvöllum á grundvelli samnings við Þingvallanefnd. Með þeim hætti geta þjóðgarðsyfirvöld stuðlað að því að atvinnurekstur innan þjóðgarðsins sé á hverjum tíma samrýmanlegur verndarmarkmiðum hans.“

Þetta er alveg laukrétt, herra forseti, því það má segja að starfsfólk Þingvallaþjóðgarðs hafi undanfarin ár unnið alveg einstakt þrekvirki í því að vernda þjóðgarðinn fyrir auknum átroðningi af völdum ferðamanna. Hér varð auðvitað sprengja í ferðamennsku og það má segja að þetta ágæta fólk hafi verið á handahlaupum að endurnýja og byggja upp t.d. göngustíga til að forða svæðinu frá óbætanlegu tjóni. Í augum okkar Íslendinga eru Þingvellir helgur staður. Ég held að okkur finnist við öll, hvert og eitt, eiga hlut í þessari perlu. Þess vegna er okkur ekki sama hvernig um hana er gengið og hvernig starfsemi fer þar fram og á hvaða hátt og á hvers vegum. Það er alveg ljóst, ekki síst með tilliti til þess að menningarminjar þessa staðar voru samþykktar á heimsminjaskrá menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2004, að við erum ekki bara skuldbundin af því að verja þessa paradís fyrir okkur, þ.e. að sjá til þess að við eigum þessa perlu áfram, heldur erum við búin að lofa öllum heiminum að við ætlum að vernda þennan stað.

Það er ótal margt sem fólk sækir til Þingvalla. Það gleymist engum sem hefur staðið á Hakinu, horft yfir vellina og vatnið og horft á fjallahringinn sem er einstakur. Það er alveg sama á hvaða árstíma er, þetta er alltaf svo ólýsanlega fallegt að maður fær eins og högg í magann þegar maður sér þetta. Auðvitað berum við þá skyldu gagnvart okkur sjálfum og komandi kynslóðum að sjá til þess að þessi náttúruperla og einstaki staður sé varðveittur eins og við viljum að hann sé á hverjum tíma. Ýmislegt hefur verið gert og þær sértekjur sem þjóðgarðurinn hefur haft, m.a. af bílastæðagjaldi og fleiru, hafa runnið til þess að byggja upp göngustíga og annað til þess að vernda náttúruna sjálfa fyrir ferðamanninum, þ.e. að hún skaðist ekki.

Hér í greinargerðinni með frumvarpinu er vitnað til reynslu Vatnajökulsþjóðgarðs sem vissulega hefur verið í svipuðum sporum, þar hefur þurft að byggja upp á allmörgum stöðum á mjög stuttum tíma í kapphlaupi við tímann. Það má t.d. benda á að eftir að ríkið ákvað að kaupa jörðina Fell þar sem Jökulsárlón er, fyrir tveimur árum eða einu og hálfu ári, standa menn frammi fyrir því að þar er ekkert nema sandur. Það þarf að byggja alla aðstöðu upp á nýtt. Uppbygging hefur í sjálfu sér tekist bærilega hjá t.d. Vatnajökulsþjóðgarði og menn horfa til þeirrar reynslu sem þar hefur orðið, en okkur hefur samt sem áður ekki alveg tekist að finna bestu leið til að innheimta þau gjöld sem menn hafa lagt á, t.d. eins og bílastæðagjöldin. Auðvitað þurfa menn að læra líka af þeirri reynslu. Þess vegna m.a. geri ég ráð fyrir að þetta frumvarp sé hingað komið sem er góðra gjalda vert. Ég get nefnt það í framhjáhlaupi að sá sem hér stendur er meðflutningsmaður á nefndaráliti með breytingartillögu sem fylgir frumvarpinu inn í þingið.

Það breytir ekki því að við þurfum að búa þannig um hnútana að sú atvinnustarfsemi sem leyfð er uppfylli ákveðnar kröfur. Ég segi leyfð vegna þess að við eigum ekki að leyfa hverjum sem er að stunda hvaða atvinnustarfsemi sem er inni í þjóðgarði sem er þess utan á heimsminjaskrá menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Við eigum ekkert að vera feimin við það að setja miklar og stífar kröfur til þeirra sem reka fyrirtæki í þjóðgarðinum eða atvinnustarfsemi.

Þess utan, eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Ólafs Ísleifssonar áðan, er heldur ekki hættulaust að heimsækja Þingvelli. Því miður höfum við orðið fyrir því að missa nokkra gesti á undanförnum árum og fleiri hafa verið hætt komnir. Það er því full ástæða til þess að gera mjög ríkar kröfur, bæði þjóðgarðsins vegna og ekki síst gestanna vegna. Við viljum að allir sem hingað koma til Íslands séu öruggir á ferðum sínum. Ef við ætlum að standa undir nafni sem þjóð sem tekur á móti ferðamönnum þurfum við að gera ríkar kröfur. Þó að það sé lítils háttar bakslag nú um stundir þá skulum við ekki gleyma því að við erum samt að fá u.þ.b. tvær milljónir ferðamanna til Íslands á þessu ári væntanlega. Reynslan sýnir okkur það, undanfarin ár, að við erum í sjálfu sér alveg fullhert af því að taka á móti þeim fjölda, þ.e. að taka á móti þeim fjölda með þeim hætti að sæmilegt sé og að fólk sé tiltölulega öruggt og geti notið dvalarinnar á meðan ferðalaginu stendur.

Það er mjög margt sem hægt er að gera til að skipuleggja starfsemi í og við garðinn þannig að upplifun gesta verði jákvæð, örugg og að þessi einstaka náttúra þoli áganginn. Það hefur stundum verið rætt, og ég held að það hafi verið sett í framkvæmd að einhverju leyti, sérstaklega þegar stór skemmtiferðaskip koma til Íslands eða til Reykjavíkur, að þá séu ekki allar rútur sendar sömu leiðina á sama tíma þannig að það séu kannski nokkur þúsund manns samankomin á Hakinu á sama tíma. Þetta held ég að hafi verið reynt og auðvitað eigum við á þeim tíma sem mest er að gera að dreifa umferðinni yfir daginn. Það er hægt að gera það með fjölmörgum hætti, t.d. með því að hafa lægra bílastæðagjald að morgni og að kvöldi en um miðjan dag. Það er hægt að gera ýmsar ráðstafanir til þess að tryggja það að garðurinn sé ekki troðinn niður og að allir njóti upplifunarinnar.

Það er síðan annað mál að það þarf að gæta að mörgu og þess vegna vona ég að þetta mál sé kannski bara hið fyrsta af mörgum í röðinni til að varðveita og byggja upp þennan þjóðgarð sem afþreyingu sem á sér ekki sinn líka. Ég man ekki betur en að í þingsályktunartillögu sem var samþykkt á Alþingi í desember árið 2016 hafi Þingvallanefnd verið lögð sú skylda á herðar að vinna nýtt skipulag fyrir Þingvallasvæðið, m.a. í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands sem haldið var upp á svo eftirminnilega á síðasta ári.

Hv. þm. Ólafur Ísleifsson minntist áðan í ræðu sinni á loftför og það var nú þannig að þegar Alþingi sjálft hélt hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í fyrra þá drukknuðu ræðurnar stundum í dyn frá flugvélum. Það er náttúrlega óæskilegt og þá er ég ekki endilega að tala um hátíðarfundi Alþingis heldur að gestir þessa þjóðgarðs séu ekki truflaðir af lágflugi flugvéla og þyrlna. Það er því margs að gæta í þessu máli.

Annað sem blasir við, af því að ég minnist á það að þessi þingsályktunartillaga hafi verið samþykkt á þinginu 2016, er að það þarf að bæta mjög merkingar sem upplýsa um söguna, upplýsa um hvað er á þessu svæði. Þá hlýtur hugurinn að hvarfla að heiðursgrafreit íslensku þjóðarinnar þar sem hvíla Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Ég verð að segja það, herra forseti, að það er til vansa fyrir okkur öll hvernig að þessum heiðursgrafreit er staðið. Þarna liggja á jörðinni tvær flatar plötur, veðraðar, sem segja eingöngu nöfn skáldanna, ef ég man rétt, hugsanlega fæðingar- og dánardag. Engar upplýsingar, ekki nokkurn skapaður hlutur. Þessum heiðursgrafreit hefur verið sýnd óvirðing af gestum undanfarin ár, það hefur komið fyrir, væntanlega af fólki sem veit ekki betur. Þetta er eitt skref í því og þess vegna vona að ég að þetta mál sé fyrsta málið í röðinni því að við verðum að sýna svæðinu öllu þá virðingu sem það á skilið og þessum tveimur látnu heiðursmönnum verðum við náttúrlega að sýna virðingu líka. Því eins og annar þeirra sagði, og ég vona að ég hafi þetta rétt eftir, herra forseti, með leyfi forseta, eftir minni, „lyngið á lögbergi helga blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik“. Þetta er ort um 1830, 1830–1840. Síðan er náttúrlega liðin þessi ár og enn er það svo, herra forseti, að lyngið á Lögbergi helga blánar af berjum hvert ár. Við þurfum að sjá til þess að svo verði um ókomna tíð. Þess vegna verðum við að varðveita þetta svæði sem best við getum.

Einn liður í því er það sem var minnst á áðan, það er að vernda ísaldarurriðann sem er alveg sérstakur. Fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafði það sem sérstakt baráttumál ár eftir ár á Alþingi að stofninn yrði verndaður með ákveðnum hætti enda einstakur. Ég man ekki hvort það var í tólftu tilraun eða í hvaða tilraun það var sem það tókst loksins og samþykkt ályktun á Alþingi um einmitt þetta á árunum 2013–2016. Hefur Össur Skaprhéðinsson mikinn sóma af því að hafa séð til þess að tillaga hans yrði samþykkt.

Ég ítreka það að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að atvinnustarfsemi í miðri perlu eins og þessari. Við verðum að gera miklar kröfur, við verðum að gera haldbæra og góða samninga við rekstraraðila. Þeir þurfa að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir bæði ábyrgðinni gagnvart viðskiptavinum sínum, að þeir séu öruggir, og gagnvart helgistaðnum sem þessir viðskiptavinir ganga um.

Það er ekki hægt að endurtaka það nógu oft að við verðum að læra af þeim sem gera kannski best í þessum efnum. Þá hvarflar hugur þess sem hér stendur í tvær áttir, annars vegar til Miklagljúfurs í Ameríku og til svæðis í Suður-Þýskalandi sem heitir Berchtesgaden hvar Arnarhreiður Adolfs Hitlers er í 1.834 metra hæð yfir sjávarmáli. Á báðum stöðum eru mjög stífar reglur, á báðum stöðum er innheimt gjald af þeim sem eiga leið um, á báðum stöðum er tryggt að þeir sem eiga erindi í garðana og svæðin fari ekki út um allt heldur fylgi ákveðnum brautum sem búið er að leggja, nota bene, vel og gaumgæfilega. Það er vönduð upplýsingagjöf, vönduð fararstjórn, vönduð leiðsögn. Þetta er til fyrirmyndar.

Ég held stundum að við Íslendingar gerum ekki nóg af því að læra af öðrum þegar við erum að reyna að finna upp hjólið eins og við erum búin að gera núna, bæði í Vatnajökulsþjóðgarði og hefur nú tekist bærilega til þó að það sé erfitt sökum þess hversu víðfeðmur hann er og á svo mörgum stöðum o.s.frv., og síðan í Þingvallaþjóðgarði. Ég er í sjálfu sér svolítið hissa á því að við höfum ekki leitað okkur erlendrar ráðgjafar í þessum efnum. Ég heyrði t.d. fyrir dálitlu síðan af manni nokkrum, þýskum, sem hefur unnið með afrískum yfirvöldum í líklega átta eða níu löndum Afríku, í því að byggja upp þjóðgarða og hjálpa þar til í þeirri stóru álfu. Slíkur maður held ég að væri hvalreki fyrir okkur Íslendinga til að láta hann sjá eða komast að því hvað við erum búin að gera sjálf, láta hann benda okkur á. Við eigum að vera ófeimin við að taka tilsögn. Við erum stundum lítið fyrir það, Íslendingar, og viljum gera hlutina á okkar eigin hátt, stundum með skelfilegum afleiðingum. En ég held að við eigum einmitt að læra af því sem best gerist og því sem vandaðast er. Því þó að Þingvellir séu þessi ótrúlega fallega og yndislega náttúruperla þá eru til svæði annars staðar í heiminum engu ómerkilegri, jafn fögur þar sem menn hafa þegar áttað sig á því hvað þarf til að koma og gera til þess að tryggja varðveisluna.

Þess vegna skrifa ég glaður undir þá breytingu að hér verði sagt, með leyfi forseta:

„Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu.“

Þetta er mergurinn málsins vegna þess að þá fær Þingvallanefnd óskorað umboð til þess að gera alla þá samninga sem þarf að gera, þeir sem best eru til þess fallnir, starfsfólkið í garðinum og Þingvallanefnd, til að tryggja að atvinnustarfsemi sem er leyft að eiga sér stað í þjóðgarðinum sé með þeim hætti að við séum alveg örugg um það að þeir sem koma og njóta séu öruggir og tekið á móti þeim með þeim hætti að sómi sé að og að við tryggjum að þessi helgistaður Íslendinga verði varðveittur eins og hann er nú um ókomna framtíð.