149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

794. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um skráningu raunverulegra eigenda. Mig langar að geta þess í upphafi að þetta frumvarp er til komið vegna sömu skýrslu og ég fór yfir áðan í nefndaráliti frá utanríkismálanefnd, þ.e. svokallaðri FATF-skýrslu, en mér láðist að nefna þá að þar var ég að mæla fyrir nefndaráliti í fjarveru hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, svo þess sé getið.

En að nefndarálitinu frá efnahags- og viðskiptanefnd. Eins og ég sagði er þetta eitt af þeim málum sem er til komið vegna úttektar FATF á Íslandi á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nefndin fékk til sín fólk á fund sem er tilgreint í nefndarálitinu og því finnst mér óþarfi að lesa það upp.

Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög taki gildi um skráningu raunverulegra eigenda, samanber skilgreiningu á raunverulegum eigendum í 13. tölulið 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og eru það stóru lögin sem ég fjallaði líka um áðan er varða þetta.

Frumvarpið er liður í viðbrögðum stjórnvalda við skýrslu alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF, eða Financial Action Task Force eins og það heitir á engilsaxnesku, um úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hún var birt í apríl 2017 og leiddi í ljós ýmsa veikleika í íslenskri löggjöf.

Svo ég fari aðeins yfir það leggur nefndin til ákveðnar breytingartillögur. Í 2. gr. frumvarpsins er gildissvið laganna skilgreint með upptalningu aðila sem undir þau heyra auk almenns ákvæðis um aðra aðila sem fengið hafa útgefna kennitölu að undanskildum lögaðilum í eigu hins opinbera og aðilum sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar sker ríkisskattstjóri úr leiki vafi á því hvort aðilar heyri undir lögin eða ekki.

Til að gefa dæmi voru í 2. gr. undir gildissviðum talin upp hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, samlagsfélög, byggingarfélög og svo mætti lengi telja. Þetta var listi upp á 21 mismunandi félag.

Þetta ákvæði hefur sætt gagnrýni, einkum 14. töluliður þess um að stéttarfélög sem skráð eru í fyrirtækjaskrá heyri undir lögin. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að greiðandi félagsmenn á hverjum tíma séu raunverulegir eigendur stéttarfélaga og að óheimilt sé að nota félagaskrár eða upplýsingar um stéttarfélagsaðild manna nema í ákveðnum tilgangi.

Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar vegna þeirrar athugasemdar er tekið fram að aldrei kæmi til þess að einstakir félagsmenn yrðu skráðir sem raunverulegir eigendur í skilningi laganna með vísan til skilgreiningar á raunverulegum eiganda í 13. tölulið 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í minnisblaðinu frá ráðuneytinu kemur enn fremur fram að afmörkun gildissviðsins byggist á 1. mgr. 30. gr. tilskipunar frá Evrópusambandinu, nr. 849/2015, þar sem fram kemur að ákvæðið taki til viðskiptafyrirtækja og annarra lögaðila sem eru stofnaðir á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Fulltrúar ráðuneytisins hafa bent nefndin á að í sambærilegum ákvæðum í norskum, sænskum og finnskum lögum hafi verið farin sú leið að afmarka gildissviðið með skilgreiningu á eðli þeirra aðila sem undir lögin heyra í stað þess að telja upp flokka líkt og gert er í frumvarpinu.

Að mati nefndarinnar er að mörgu leyti óheppilegt að telja þá aðila sem heyra undir lögin upp með tæmandi hætti. Með því að fara þá leið að kveða með almennum hætti á um eðli þeirra aðila sem falla undir gildissvið laganna er m.a. komið í veg fyrir að breyta þurfi ákvæðinu þegar ný félagaform verða til. Bendir nefndin í því samhengi á frumvarp til laga um félög til almannaheilla, sem er mál nr. 785 á yfirstandandi þingi. Jafnframt er með því móti girt fyrir að undan gildissviði laganna verði komist með því að velja starfsemi félagaform sem er ekki sérstaklega fram tekið í upptalningu lagaákvæða.

Leggur nefndin til breytingu á 2. gr. þannig að gildissvið laganna verði skilgreint með almennu orðalagi samkvæmt fyrirmyndum frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í ákvæðinu verði tekið fram að lögin gildi ekki um fyrirtæki og stofnanir í eigu opinberra aðila né heldur um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Hið síðarnefnda leiðir af skilgreiningu á raunverulegum eiganda í 13. tölulið 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en auk 2. gr. afmarkast gildissvið laganna af þeirri skilgreiningu.

Með breytingunni er ekki ætlunin að gildissvið laganna verði annað en lagt var upp með í frumvarpinu. Lagt er til ákvæði um að ríkisskattstjóri skeri úr í vafatilvikum um hvort aðilar heyri undir lögin. Þá er lagt til að við reglugerðarákvæði 19. gr. bætist heimild til ráðherra til að skýra gildissvið laganna nánar innan ramma 2. gr.

Þá setjum við frest til að skrá raunverulega eigendur í ákvæði til bráðabirgða. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er aðilum sem undir lögin heyra og þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá veittur frestur til að veita upplýsingar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. til 1. desember 2019. Að tillögu ráðuneytisins leggur nefndin til að frestur þessi verði framlengdur til 1. júní 2020.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit skrifa allir hv. nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd.