149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum einmitt á þeim tímapunkti — stundum er leiðinlegt að tala þannig, við sem höfum verið hérna eitthvað aðeins lengur en margir — sem við óttuðumst þegar við vorum að farin að tala um að leyfa málunum að fara í gegn. En við sögðum: Við vildum vera málefnaleg, við vildum hleypa málinu í gegn. Hér á árum áður var farið í hvert einasta mál og það stoppað til þess að halda samningsstöðu. (Gripið fram í: Satt.) Við ákváðum að gera það ekki í ábyrgu stjórnarandstöðunni. Við ákváðum að hleypa málum að og hvað gerðum við í gær? Meiri hluti stjórnarandstöðunnar hjálpaði málum ríkisstjórnarinnar í gegn. Ég velti því fyrir mér, ágæti hæstv. forseti: Hvað þýðir það fyrir okkur? Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur að vera málefnaleg í stjórnarandstöðu? Við fáum ekkert, það er aldrei tekið tillit til okkar, ekki við uppsetningu á dagskrá, ekki í samskiptum, ekki einföldum óskum um að gera hlé, breyta dagskrá meðan við náum saman, af því að það er stutt í að alla vega langstærstur hluti stjórnarandstöðunnar nái saman við ríkisstjórnina. En það er ekki hlustað. (Forseti hringir.) Auðvitað staldrar maður við þegar sagan og reynslan er þessi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)