149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (frh.):

Forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra, ég gæti talað talsvert meira um þetta en hef örugglega tækifæri til þess. Mig langar þó að vekja athygli á enn einni breytingartillögu sem hv. atvinnuveganefnd eða meiri hluti hennar leggur til, sem er að við bætist efnisliður sem hljóði svo:

„Ráðherra skal, að höfðu samráði við Matvælastofnun, setja reglugerð sem mælir fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi, svo sem um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús og tiltekin viðmiðunarmörk um viðbrögð og aðgerðir vegna útbreiðslu laxalúsar.“

Þetta er í reglugerð í dag, forseti, en við töldum rétt að skjóta styrkari stoðum undir þetta og hafa lagastoð fyrir þessu þannig að hér er kveðið á um að hægt sé að setja viðmiðunarmörk hvað varðar sníkjudýr í fiskeldi.

Mig langar að árétta að meiri hlutinn telji mikilvægt, og raunar tel ég mig ekki vera að syndga upp á náðina með því að fullyrða að það sé sameiginlegt álit allra í hv. atvinnuveganefnd, að tryggja að þær stofnanir sem fá aukið hlutverk samkvæmt lögunum verði efldar og þeim tryggt fjármagn en það má ekki verða þannig að við setjum þessi auknu verkefni á stofnanirnar, búum málinu umgjörð sem veltur á stofnununum en látum undir hælinn leggjast að styrkja stofnanirnar. Ég hef fulla trú á að svo verði ekki heldur munum við tryggja þeim aukið hlutverk og efla og tryggja fjármagn.

Að lokum langar mig að vitna í nefndarálitið þar sem m.a. er komið inn á endurskoðunarákvæði en að einhverju leyti fangar þessi tilvitnun sem ég mun lesa upp þá hugsun og anda sem ég tel að ríkt hafi í meiri hluta atvinnuveganefndar og vona innilega að ríki hjá okkur öllum í þingsal.

„Mikil og ör þróun hefur átt sér stað í fiskeldi undanfarin ár og ljóst er að hún mun halda áfram. Það er því mikilvægt að við uppbyggingu atvinnugreinarinnar hér á landi verði ætíð stuðst við bestu fáanlegu tækni, með hagsmuni náttúrunnar í huga. Meiri hlutinn telur að ekki sé langt þangað til að eldi á frjóum laxi verði eingöngu stundað í lokuðum og hálflokuðum kvíum. Að því beri að stefna og í því skyni þarf á næstu árum að fara fram endurskoðun á lagaumhverfi fiskeldis þar sem tekið verður tillit til þeirra framfara sem hafa orðið, m.a. á eldisbúnaði. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn því til að við 23. gr., sem verður 24. gr., frumvarpsins bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.“