149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að efla þessar stofnanir. Það hefur vissulega verið unnið aðeins að því undanfarið. Það er mjög mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er hvað fjármál ríkisins varðar að við stöndum vörð þar um.

Svo ítreka ég aftur að gert er ráð fyrir nýjum gjaldstofni. Þar hefur töluvert verið deilt um hvernig hann skuli dreifast. Þar segi ég aftur: Í mínum huga er mikilvægast að styrkja og efla eftirlitið og koma því á réttan kjöl.

Hvað varðar menntun, það að mennta starfsfólk þá þurfum við að horfa til þeirra menntastofnana sem hafa sinnt því. Háskólinn á Hólum er gott dæmi, Fisktækniskólinn o.fl. En við þurfum að vinna að því hvar sem best er að gera það — það eru nú menntasetur víða um land — þannig að við getum stutt við að starfsfólk verði sem best menntað.