149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að grein mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið brotin í Al Thani-málinu svokallaða þar sem hæstaréttardómarinn Árni Kolbeinsson hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu vegna fjölskyldutengsla, en sonur hans, Kolbeinn Árnason, var starfsmaður Kaupþings fyrir hrun og fyrir skilanefnd bankans eftir hrun. Í framhaldi af tveimur dómum Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2018 ákvað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leggja fram frumvarp um kvótasetningu makríls sem við ræðum nú. Framangreinda dóma dæmdi m.a. Árni Kolbeinsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem fenginn var sérstaklega til að dæma í málinu. Kolbeinn sonur Árna var framkvæmdastjóri LÍÚ, síðar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, frá 2013–2016.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji rétt að samþykkja frumvarp sem byggt er á dómi þar sem einn hæstaréttardómari er mögulega vanhæfur. Er ekki rétt að málið sé skoðað frekar? Hafið þið í stjórnarflokkunum í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu skoðað hvort ríkisstjórnin ætti ekki að biðja um endurupptöku dómsins vegna mögulegs vanhæfis Árna Kolbeinssonar vegna hagsmunagæslu sonarins fyrir útgerðir sem fá kvóta á grundvelli dómsins?