149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. En ef ég hef skilið ræðu hv. þingmanns áðan rétt þá nefndi hv. þingmaður einmitt þessa hæstaréttardóma og að í framhaldi af þeim hafi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagt fram frumvarp sem reyndar var stórútgerðinni mikið í hag þó að hv. atvinnuveganefnd hafi gert breytingar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þau í stjórnarmeirihlutanum hafi ekki velt þeirri stöðu fyrir sér — því að ríkið vann málið í héraðsdómi, það er Hæstiréttur sem snýr dómnum við — hvort vera kunni að einn dómarinn sé vanhæfur vegna fjölskyldutengsla og í ljósi þess að Mannréttindadómstóllinn hefur dæmt í mjög svipuðu máli. Skil ég það rétt að stjórnarmeirihlutinn hafi virkilega ekki skoðað það að þarna gæti verið pottur brotinn? Nú má það vera að þetta sé allt í fína lagi, en stjórnarmeirihlutinn hlýtur, a.m.k. eftir þessa ræðu mína hér, að íhuga það hvort þarna hafi ekki verið eitthvað á ferðinni sem gæti lagst með ríkinu fyrir hönd þjóðarinnar sem á auðlindina, að það sé akkur í því að ríkið vinni mál sem þetta og þurfi ekki að kljást við t.d. sektir og há fjárútlát vegna dómsins.