149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel þetta vera tvö óskyld mál. Við vitum að eins og lög um stjórn fiskveiða eru þá er í uppsjávarveiðum byggt á síðustu sex árum, horft til aflareynslu þar, en síðustu þrem árum varðandi aðrar veiðar. En það er ekki málefnalegt og ekki finnst mér eðlilegt að stjórnvöld stýri fiskveiðum við landið með reglugerð. Við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það. Þó að þetta mál hafi komið fram sem frumvarp í kjölfar þessarar niðurstöðu Hæstaréttar þá er það ekki eina ástæða þess að það kemur fram. Það vita allir að það er ekki eðlilegt að stjórna fiskveiðum og úthlutun aflaheimilda með reglugerð. Það er ekki eðlilegt. Kannski hefðu fleiri þingmenn átt að vekja athygli á því og ég vísa til þess að hv. þingmaður hefði mátt kannski vísa til þess fyrir einhverjum árum síðan og vekja athygli á því og ég sjálf og við öll, við hefðum átt að vera vakandi yfir því. En það er gott þó seint sé að það er gert núna með þessu lagafrumvarpi. Þó að viðkomandi dómari verði hugsanlega ekki talinn hæfur þá snertir það ekki ákvörðun Alþingis að stjórna úthlutun aflaheimilda í makríl með lögum. Það tel ég vera alveg kýrskýrt.