149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016. Þetta er mál nr. 413. Með frumvarpinu er komið á breyttu fyrirkomulagi við ákvörðun launa þeirra sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs sem felld voru úr gildi með lögum nr. 60/2018. Lagt er til að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar verði ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert.

Með fyrirkomulaginu sem lagt er til í frumvarpinu er komið í veg fyrir að laun æðstu embættismanna eða kjörinna fulltrúa verði leiðandi um þróun launa. Þess í stað taki laun hlutfallslegum breytingum í samræmi við þróun meðaltals reglulegra launa starfsmanna ríkisins næstliðið ár. Þannig er unnið gegn því misræmi sem getur skapast í launaþróun. Þar sem laun þeirra hópa sem frumvarpið nær til verða endurskoðuð árlega samkvæmt framangreindum forsendum eykst jafnframt gagnsæi og fyrirsjáanleiki launanna.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu og eru þær fyrst og fremst í samræmi við ábendingar aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu bárust töluvert margar umsagnir frá hagsmunaaðilum og var tekið tillit til þeirra. Breytingartillögurnar eru hins vegar á sérstöku þingskjali, þskj. 1552. Það er rétt og skylt að fara örstutt yfir breytingartillögurnar en að öðru leyti vísa ég í nefndarálitið.

Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna taki ekki breytingum fyrr en 1. janúar 2020 og þá í samræmi við þróun á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna árið 2018. Frá og með 1. júlí 2021 taki laun þessara aðila breytingum 1. júlí ár hvert líkt og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Þetta gildi þó ekki um laun dómara og þeirra sem fara með ákæruvald en laun þeirra skulu taka breytingum strax 1. júlí 2019 og árlega þaðan í frá líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Þá er í öðru lagi rétt að vekja athygli á því að meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem miða að því að launafyrirkomulag sem þar er mælt fyrir um gildi um laun lögreglustjóra líkt og annarra ákærenda sem taldir eru upp í 1. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við ákvörðun launa dómara og handhafa ákæruvalds verði að gæta að sérstöðu þeirra og tryggja starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins.

Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til þá breytingu á ýmsum greinum frumvarpsins að heimild ráðherra til að ákveða að laun hækki hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa verði fellt niður. Skýrt verði að laun skuli aðeins taka breytingum 1. júlí ár hvert í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna á næstliðnu ári samkvæmt birtum útreikningum Hagstofunnar. Með því vill meiri hlutinn annars vegar koma í veg fyrir að laun ráðamanna og æðstu embættismanna hækki tvisvar á ári og hins vegar tryggja að hækkun launa miðist aðeins við staðfesta útreikninga Hagstofunnar en ekki áætlanir.

Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu sem varðar kjör presta og annarra fulltrúa þjóðkirkjunnar sem taldir eru upp í 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í ákvæðinu er tekið fram að laun þessara aðila skuli ekki taka breytingum fyrr en samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag um framlög ríkisins til hennar. Dráttur hefur hins vegar orðið á að slíkt samkomulag náist. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til, að höfðu samráði við ráðuneytið, að kveðið verði á um að laun þessara aðila sem tóku síðast breytingum samkvæmt ákvörðun kjararáðs frá 17. desember 2017 breytist 1. júlí ár hvert samkvæmt sömu aðferð og önnur laun sem kveðið er á um í frumvarpinu þar til nýtt samkomulag milli ríkis og kirkju hefur náðst.

Þá er rétt að benda á að nefndinni bárust ábendingar um að tilefni sé til að gera breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað annars vegar og lögum um Stjórnarráð Íslands hins vegar til að skýra til hlítar verkaskiptingu milli Alþingis og Stjórnarráðsins þegar kemur að greiðslu starfskostnaðar með tilliti til ferðakostnaðar ráðherra og vísa ég í þeim efnum til nefndarálitsins.

Að auki leggur meiri hlutinn til breytingar á 9. gr. frumvarpsins þar sem viðbót við úrskurð kjararáðs um laun og starfskjör héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara við embætti héraðssaksóknara sem bókað var um með bréfi 19. júní 2018 lá ekki ljós fyrir þegar frumvarpið var samið. Í bókuninni kemur fram ákvörðun kjararáðs um laun og starfskjör saksóknara við embætti héraðssaksóknara sem jafnframt stýra sviði eða skrifstofu. Leggur meiri hlutinn til að sú launafjárhæð sem þar var ákveðin bætist við 1. efnismgr. 9. gr. frumvarpsins.

Aðrar breytingar, hæstv. forseti, sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og eiga ekki að hafa efnisleg áhrif.

Undir nefndarálit þetta rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Hanna Katrín Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigríður Á. Andersen og Silja Dögg Gunnarsdóttir.