149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá ágætu ræðu sem hann flutti. Ég viðurkenni að þetta mál hefur gert mig mjög órólegan og orð hv. þingmanns drógu ekki úr þeim óróleika mínum. Með þessu frumvarpi, verði það að lögum, á að búa til 300 manna stjórnsýslulegt bákn sem á að lifa sjálfstæðu lífi og hafa eftirlit með sjálfu sér.

Ég verð að segja að sporin hræða í því efni. Það vald sem Seðlabankanum hefur verið falið, og jafnvel ekki falið, hefur hann ekki farið vel með undanfarin misseri og ár. Eins og ég skil skipurit Seðlabankans eftir að hafa gluggað í ný lög, og eins og ég skil þessa sameiningu, á fjármálaeftirlitið að lúta forræði eins af aðstoðarbankastjórum Seðlabankans sem heyrir svo aftur undir seðlabankastjóra. Ég bara verð að segja að ég get ekki séð hvernig nauðsynlegt sjálfstæði eftirlits er tryggt með þeim hætti. Það hafa komið fram varnaðarorð, m.a. fá frá prófessor Gylfa Zoëga, sem er innanbúðarmaður í Seðlabankanum, svona með annan fótinn. Hann hefur varað mjög við þessari sameiningu.

Ég verð því að spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt að staldra við og fara betur yfir þetta mál áður en því er gusað hér í gegnum þingið korter í þrjú rétt fyrir þinglok með takmarkaðri umræðu og með takmarkaðri umfjöllun? Er ekki rétt að staldra aðeins við, fara yfir forsendurnar sem hér eru settar fram og kanna hvort þær standast lágmarksskoðun? Ég tel að þetta orki í besta falli mjög tvímælis og vil gjarnan fá viðbrögð hv. þingmanns við því.