149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[19:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta er mikið frumvarp sem við ræðum hér, um Seðlabankann og sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Það verður að segjast eins og er að það er töluverð vinna að fara í gegnum þetta frumvarp og greina það og ég held að flestir þingmenn séu sammála mér í því. Það liggur töluverð vinna í því að kynna sér það til hlítar til að hafa góða heildarsýn yfir málefni sem er að sjálfsögðu stórt og mikið, eins og ég nefndi. Og það læðist dálítið að manni sá grunur að frumvarpið sé svolítil birtingarmynd þess sérfræðingaveldis sem við tölum stundum um hér og Ísland býr við, að því er ég tel.

Herra forseti. Ég ætla að reyna að draga saman aðalatriðin í þessu efni og víkja síðan að því helsta sem mér fannst athyglisvert í greinargerðinni. En í framhjáhlaupi má nefna að Seðlabankinn var nú fram yfir miðja 20. öld geymdur í skúffu í Landsbankanum, eins og Albert heitinn Guðmundsson orðaði það svo vel í sinni fjármálaráðherratíð. Síðan kom Jóhannes Nordal að stjórnun bankans og gerði það vel í ein 30 ár og við hlið hans voru pólitískir aðstoðarmenn, ef svo má að orði komast. Mikill áfangi náðist síðan þegar Davíð Oddsson tók við sem forsætisráðherra og bein peningaprentun Seðlabankans var bönnuð í því skyni að koma böndum á verðbólguna. Einfaldasti birtingarmáti hennar voru yfirdráttarlán ríkisins í Seðlabankanum til að fjármagna halla á ríkissjóði.

Ég tel, herra forseti, að það sé útbreiddur misskilningur að hagstjórn Seðlabankans hafi tekist sérstaklega vel undanfarin ár. Ég held að staðan sé fyrst og fremst hagstæð vegna þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók á vogunar- og hrægammasjóðunum, eins og við kölluðum þá, réttnefndum, og heimti af þeim verulega hátt stöðugleikaframlag sem var því miður að hluta til skilað til baka eins og við höfum rætt hér margsinnis. Öll fley rísa á flóði, eins og sagt er, og naut Seðlabankinn góðs af því en var að mínu mati allt of seinn að aflétta gjaldeyrishöftunum. Ef harðnar á dalnum aftur er hætt við því að menn muni sjá eftir að fela einum einstaklingi allt of mikil völd við svo mikilvæga stofnun og hafa þá bankaráð sem er svona til málamynda.

Seðlabanki Íslands er að mínu mati of mikið bákn í dag fyrir jafn lítið þjóðfélag og Ísland er, ekki síst ef hinu fjölmenna Fjármálaeftirliti yrði bætt við. Það er að sjálfsögðu umhugsunarefni í þessu að það hefur komið fram að ekki standi til að fækka neitt starfsmönnum við sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Það var eitt af því fyrsta sem kom fram þegar rætt var um sameiningu þessara tveggja mikilvægu stofnana, að það stæði ekki til að fækka starfsmönnum. Það finnst mér vera ekki alveg rétt nálgun vegna þess að það hljóta að vera samlegðaráhrif í þessari sameiningu. Þarna eru starfsmenn að greina svipaða hluti, jafnvel þá sömu, og það verður bara að vera sú stefna og krafa að þegar sameining stofnana af þessu tagi er gerð fylgi því hagræðing að sama skapi.

Við í Miðflokknum höfum gagnrýnt stefnu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að því að bæta í ríkisbáknið. Það skýtur skökku við að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nú lengi talað fyrir því að draga úr ríkisbákninu og notaði oft hin fleygu orð „báknið burt“ í kosningabaráttu sinni og á öðrum vettvangi, skuli enn og aftur ekki standa við þau orð að hagræða í ríkisrekstrinum þegar tækifæri gefst til þess. Það er bara dapurlegt að mínu mati að flokkur sem hefur gefið það út að vilja draga úr umsvifum ríkisins skuli ekki standa við þau orð. Við höfum séð það birtast í fjárlagafrumvarpinu og með þessu máli er verið að sameina tvær stofnanir og hvergi minnst á að þarna sé verið að bæta í báknið eða að tilefni sé til þess að spara fyrir ríkissjóð með því að hagræða.

Herra forseti. Svo ég víki að frumvarpinu er aðalatriðið sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Megináherslan við lagabreytinguna er lögð á að koma þessu í kring en varðandi aðra hnökra í starfsemi bankans virðist vera eins og kíkirinn sé settur fyrir blinda augað. Þar má nefna fyrst spurninguna um ofurvald seðlabankastjórans.

Veltum fyrir okkur spurningunni: Minnka völd seðlabankastjóra við þessa sameiningu, með þessari nýju löggjöf? Það er nú svo, herra forseti, að völd hafa tilhneigingu til að spilla og alger völd leiða til algerrar spillingar. Þessi fleygu orð Actons lávarðar frá 19. öld hafa staðist tímans tönn. Fáum hefur dulist að einum seðlabankastjóra voru falin allt of mikil völd árið 2010 þegar bankastjórum var fækkað úr þremur í einn. Valdníðslan er á allra vitorði og rækilega staðfest af umboðsmanni Alþingis. Þetta þekkjum við. Við þekkjum söguna af Samherjamálinu og því sem þar gerðist og aðkomu Seðlabankans að því máli.

Í frumvarpinu virðist því miður ekki gerð nein tilraun til að hemja völd seðlabankastjórans svo nokkru nemi frá því sem nú er. Það er ekki að sjá að verið sé að draga úr þeim völdum sem menn fóru því miður ekki nægilega gætilega með og hefur valdið orðsporshnekki hvað þessa mikilvægu stofnun varðar að mínu mati.

Varðandi málefni peningastefnu, þ.e. vaxtaákvarðanir, virðist sami háttur eiga að vera áfram og verkefni fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits eru færð undir sambærilegar nefndir og á meiri hluta atkvæða þar að ráða. Í þessum nefndum er seðlabankastjóri ásamt undirmönnum sínum. Benda má á að Fjármálaeftirlitið kemur þá nýtt undir seðlabankastjóra þannig að völd hans eru aukin fremur en hitt.

Þá er bankaráði Seðlabankans veittur í 2. mgr. 8. gr. aukinn réttur til upplýsinga, en í því felst að stjórnendur Seðlabankans skuli veita bankaráði þær upplýsingar um bankann og félög sem bankinn á sem eru nauðsynlegar til að bankaráðið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þá er lagt til að lögfest verði skylda seðlabankastjóra til að upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur.

Þá er rétt að víkja að stöðu bankaráðsins. Ég verð að segja, herra forseti, að það er reyndar með ólíkindum að það þurfi að lögfesta ákvæði sem þetta. Ástæðan er auðvitað sú að undanfarin ár hefur bankaráðið meira og minna leyti verið hunsað. Núverandi formaður bankaráðs hefur t.d. lýst áhyggjum sínum yfir því að seðlabankastjóri skuli ekki hafa farið að lögum í Samherjamálinu en það hefur hins vegar engin áhrif haft. Það ber að vekja athygli á því að bankaráðið hefur miklu minni völd en í hefðbundnum fyrirtækjum og nánast engin. Sérstaklega er tekið fram í 8. gr. að það geti ekki gripið inn í ákvarðanir eða starfsemi bankans. Eins og dæmin sanna virðist þá ekki skipta neinu máli þótt bankaráð hafi áhyggjur af því að seðlabankastjóri hunsi lög og reglur.

Herra forseti. Væri ekki meira gagnsæi falið í því að kalla bankaráðið silkihúfuráð? Það lýsir mun betur hlutverki þess. En svo maður sleppi því að tala á léttum nótum: Er ekki rétt að veita bankaráðinu heimild til að grípa til sérstakra ráðstafana ef það kemst á snoðir um lögleysu í starfsemi bankans?

Nú stendur fyrir dyrum að ráða seðlabankastjóra og þrjá aðstoðarseðlabankastjóra. Skipuð hefur verið hæfisnefnd. Þá vaknar sú spurning, sérstaklega í framhaldi af landsdómsráðningum, hver muni í raun ráða skipaninni og hvert ferlið verði. Hver verður ferillinn? Eftir hvaða viðmiðum á valnefndin að fara? Spurning er hvort hún komi til með að notast við svokallað excel-skjal en við þekkjum þær afleiðingar sem starfsemi slíkra nefnda hafði í landsdómsmálinu. Prófessor við Háskóla Íslands hefur sagt opinberlega að embættið sé svo valdamikið að ráðning í það hljóti að verða pólitísk. Alþingi á því kröfu á því að forsætisráðherra upplýsi um þessi mikilvægu atriði.

Ég vil víkja aðeins, herra forseti, að því sem mér finnst athyglisverðast í frumvarpinu, fyrir utan það sem ég hef nefnt hér, og í greinargerðinni. Það segir í greinargerðinni:

„Starfshópurinn benti á að samhliða þyrfti að styrkja yfirstjórn Seðlabankans með skipun sérstaks aðstoðarseðlabankastjóra með áherslu á þjóðhagsvarúð. Jafnframt var lagt til að skipaður yrði annar aðstoðarseðlabankastjóri með áherslu á peningastefnu. Áfram yrði þó starfandi einn aðalseðlabankastjóri sem væri æðsti yfirmaður bankans og tæki ábyrgð á rekstri hans. Þessir þrír aðilar myndu svo mynda fjölskipað stjórnvald sem fjallaði um ýmsar ákvarðanir sem til dæmis tengdust óreglubundinni hagstjórn, svo sem lánveitingar til þrautavara og ákvarðanir um inngrip á markaði sem falla utan reglubundinnar hagstjórnar.“

Síðan er fjallað um meginefni frumvarpsins. Þar segir:

„Með frumvarpinu er lagt til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun. Ekki eru lagðar til breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana sameiginlega samkvæmt núgildandi lögum. Lúta breytingarnar fremur að sameiningu verkefna hjá einni stofnun og breytingum á stjórnskipan og fyrirkomulagi ákvarðanatöku, einkum í ljósi aukins vægis þjóðhagsvarúðar. Breytingunum er ætlað að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með um að auka skilvirkni og skýrleika ábyrgðar og bæta stjórnsýslu við ákvarðanatöku,“ — sem er ekki vanþörf á— „nýtingu upplýsinga og möguleika á auknum gæðum greiningar og yfirsýnar eins og fjallað er um hér að framan.

Helstu atriði frumvarpsins eru:

1. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið eru sameinuð í eina stofnun undir heitinu Seðlabanki Íslands. Í frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, kemur fram að Fjármálaeftirlitið verði lagt niður og verkefni þess falin Seðlabanka Íslands.

2. Markmið Seðlabankans er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.

3. Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn, þó að hámarki tvisvar sinnum. Þá skipar forsætisráðherra þrjá varaseðlabankastjóra, einnig til fimm ára í senn og að hámarki tvisvar sinnum. Einn þeirra leiðir málefni sem varða peningastefnu, einn leiðir málefni sem varða fjármálastöðugleika og einn málefni sem varða fjármálaeftirlit. Varaseðlabankastjórar fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits eru skipaðir eftir tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.

4. Rekstur og stjórnun Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra. Hann ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin. Sumar ákvarðanir eru teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum.

5. Ákvarðanir um beitingu valdheimilda bankans eru teknar af peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Nefndirnar eru skipaðar 5–7 fulltrúum Seðlabankans og utanaðkomandi sérfræðingum á viðkomandi sviði. Seðlabankastjóri er formaður allra þriggja nefnda bankans.“

Hér sjáum við, herra forseti, að það er síður en svo verið að draga úr völdum seðlabankastjóra með þessu frumvarpi. Með leyfi forseta:

„6. Varaseðlabankastjórar hafa faglega umsjón með vinnu bankans á sínum sérsviðum. Þeir bera ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir nefndir bankans og eru auk seðlabankastjóra talsmenn hans á sínu sviði. Þeir sitja jafnframt í einstökum nefndum bankans.

7. Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við þau lög sem um starfsemina gilda. Í bankaráði sitja sjö manns sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi.“

Ég hef fjallað um bankaráð fyrr í ræðu minni. En hér segir:

„Lagt er til að fellt verði úr lögunum ákvæði um að bankaráð fari með yfirstjórn bankans ásamt ráðherra. Í því felst í raun ekki efnisbreyting, enda verður ekki ráðið af núgildandi lögum að bankaráð fari með eiginlega yfirstjórn bankans, þar sem verkefni bankaráðs eru tæmandi talin í 28. gr. núgildandi laga.“

Í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvarðanir verði teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórunum þremur og eru þær tæmandi taldar í málsgreininni. Í frumvarpinu er lagt til að í stað eins aðstoðarseðlabankastjóra verði skipaðir þrír varaseðlabankastjórar en orðið „varaseðlabankastjóri“ þykir lýsa starfinu betur en aðstoðarseðlabankastjóri. Gert er ráð fyrir að hver varaseðlabankastjóri stýri málefnum bankans á því sviði sem hann er skipaður til að leiða, undir yfirstjórn seðlabankastjóra. Þannig er lagt til að einn varaseðlabankastjóri leiði málefni er varðar peningastefnu, annar leiði málefni er varðar fjármálastöðugleika og sá þriðji leiði málefni er varða fjármálaeftirlit, eins og ég hef nefnt fyrr.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er á þrotum. Ég vil segja að lokum að ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og Smára McCarthy, auk þess sem kemur fram í nefndaráliti (Forseti hringir.) 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, (Forseti hringir.) að það sé skynsamlegt að fresta samþykkt (Forseti hringir.) þessa frumvarps um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga að nánar að ýmsum álitaefnum sem ég hef m.a. nefnt hér.