149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[20:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins þar sem í raun og veru er um að ræða tvö mál í einu. Ég hef aðeins gluggað í umsagnir um frumvarp til laga um Seðlabankann, 790. mál, og langar mig, með leyfi forseta, að lesa upp úr umsögnunum. Sú fyrri er frá Alþýðusambandi Íslands og hljóðar á þessa lund:

„Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, 790. mál.

Með frumvarpinu er sett fram ný heildarlöggjöf um Seðlabanka Íslands. Meginbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu lýtur að sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Eftirlit með fjármálastarfsemi verður þannig fært undir starfsemi Seðlabanka Íslands. Auk þess eru lagðar til breytingar á stjórnkerfi Seðlabankans, m.a. að þrjár nefndir, peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, taki ákvarðanir um beitingu valdheimilda. Gert er ráð fyrir að skipaður verði einn aðalseðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar sem hver um sig leiði málefni einnar nefndar. Breytingunni er ætlað að styðja betur en núverandi fyrirkomulag við það mikilvæga verkefni Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að tryggja fjármálastöðugleika og hafa eftirlit með þjóðhagsvarúð. Meginmarkmið breytinganna er að auka skilvirkni og skýrleika ábyrgðar, bæta stjórnsýslu við ákvarðanatöku, bæta nýtingu upplýsinga og auka gæði greiningar og bæta yfirsýn.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki athugasemdir við meginefni frumvarpsins og telur markmið breytinganna skynsamleg. ASÍ telur hins vegar mikilvægt að breytingarnar verði ekki til þess að dregið verði saman í starfsemi og verkefnum þeirra stofnana sem um ræðir og þrengt að möguleikum þeirra til að sinna eftirlits- og rannsóknarhlutverki sínu og gæta hagsmuna almennings, þar með talið vernd neytenda á fjármálamarkaði.

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um laun og starfskjör bankastjóra og gert ráð fyrir að laun seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra taki breytingum þann 1. júlí ár hvert til samræmis við mat Hagstofu Íslands á hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið ár. Þá hafi ráðherra einnig heimild til að hækka laun þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Þetta verklag er til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um breytingar á lögum vegna brottfalls kjararáðs (413. mál á yfirstandandi þingi). ASÍ tók í umsögn sinni um það mál undir breytt fyrirkomulag við launaákvarðanir til framtíðar en telur fullnægjandi að hækka laun þann 1. júlí ár hvert og leggst alfarið gegn því að ráðherra hafi auk þess heimild til þess að hækka laun þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.“

Þetta er athyglisvert. Svo er ég hér með aðra umsögn sem barst frá háskólanum og mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr henni líka:

„Undirritaður sendi inn umsögn um fyrri drög að ofangreindu frumvarpi til forsætisráðuneytisins fyrir tæpum mánuði. Meginhluta þeirrar umsagnar er að finna sem fylgiskjal með umsögn þessari, til ítrekunar fyrir Alþingi enda boðskapur hennar einfaldur og skýrður með stuttri þýðingu á sögulegum samanburði á mismunandi markmiðum seðlabanka og umfjöllun um tilgang þeirra.

Þá er bætt í niðurlagi þessarar nýju umsagnar við einu atriði sem einnig er einfalt og mikilvægt. Umsögnin byggist á sérfræðiþekkingu og reynslu undirritaðs á fjármagnsmörkuðum, doktorsrannsókn á fjárflæði í bönkum og framhaldsrannsóknum á starfsemi seðlabanka á alþjóðavísu.

Fyrri umsögn miðaði að því að bæta við einu nýju markmiði í 2. gr. frumvarps laganna varðandi atvinnustig. Huga þarf að því að ný heildstæð lagasetning miðist ekki bara við viðbrögð við fjármálakrísunni miklu (e. Great Financial Crisis) sem kallað er fjármálaáfallið í greinargerð með lagafrumvarpinu. Almennt er líklegt að næsta krísa verði öðruvísi en sú síðasta og því ber að huga að hættum til framtíðar í nýrri lagasetningu og er þá vel viðeigandi að horfa lengra aftur en áratug, til dæmis allt aftur til kreppunnar miklu (e. Great Depression) sem oft er miðuð við árið 1929.“

Það er svona u.þ.b. lengra en elstu menn muna.

„Vel má hugsa sér að orða hið æskilega fjórða markmið 2. gr. á þann veg að það fjalli ekki beint um atvinnustig eins og lagt var til í fyrri umsögn (þó er í bandarískum lögum reyndar talað um hámörkun atvinnu) heldur mætti finna því markmiði viðeigandi íslenskt orðalag sem sneri að vinnumarkaðinum og stöðugleika hans. Þannig væri einnig mögulegt að bæta við fjórðu nefndinni sem hefði það hlutverk að styðja Seðlabankann með utanaðkomandi sérfræðingum svo að tekið væri tillit til ástands á vinnumarkaðinum til jafns við fjármálamarkaðinn (með verðstöðugleika, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi). Ekki er tekin afstaða hér til þess hvort það kalli á fjórða varaseðlabankastjórann eða hvort sá almenni efnahagsstöðugleiki sem af markmiði um stöðugleika á vinnumarkaði hlýst heyri undir seðlabankastjóra sjálfan.

Lítil viðbótarábending snýr að orðalagi í þriðja markmiði 2. gr. Eins og það stendur núna er óljós hugtakanotkun sem birtist í því að tala um trausta og örugga starfsemi. Ekki er ljóst af greininni eða greinargerðinni hver munurinn er á hugtökunum tveimur eða hvaða munur er á traustri starfsemi og öruggri starfsemi eða hverju er verið að ná fram með því að tiltaka bæði hugtökin.

Röksemdir í greinargerð með framlögðu frumvarpi varðandi athugasemd undirritaðs við fyrri drög sem kynnt voru í síðasta mánuði á samráðsgátt eru á þann veg að óumflýjanlegt er annað en að hrekja þau með einfaldri röksemdafærslu. Þar stendur á bls. 41–42:

„Fram til ársins 2001 var full atvinna eitt af markmiðum Seðlabankans. Lagabreytingarnar á árinu 2001 sneru að því að einfalda markmið bankans hvað varðar peningastefnu enda gengu markmiðin að sumu leyti hvert gegn öðru og ekki ljóst hvert þeirra hefði forgang. Með sveigjanlegu verðbólgumarkmiði er tekið tillit til atvinnustigs auk þess sem Seðlabankinn skal við ákvarðanir sínar stuðla að framgangi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar telji hann það ekki ganga gegn markmiðum sínum.“

En það að fallið hafi verið frá atvinnumarkmiði í lagabreytingu frá árinu 2001 eru haldlítil rök þar sem einföldunin sem fólst í þeirri breytingu byggðist á þáverandi misskilningi að eitt markmið væri einföld lausn til að ná fram árangursríku starfi seðlabanka. Reynslan frá árinu 2008 sýndi öllum heiminum að það að einblína á verðstöðugleika gerði menn blinda á vandann sem af fjármálaóstöðugleikanum hlaust. Það að hafa ekki lengur aðeins verðstöðugleika heldur bæta við fjármálastöðugleika og þriðja markmiðinu eru einmitt frekari rök fyrir því að fjórða markmiðið geti verið skynsamlegt fremur en óæskilegt. Ekki er nægjanlegt í ljósi reynslunnar síðastliðinn áratug að bæta bara við markmiðum um fjármálastöðugleika og fjármálakerfi til að lagfæra lagabreytinguna frá árinu 2001. Nánar er fjallað um mikilvægi atvinnumarkmiðsins í stuttri samanburðarsamantekt Adams Toozes í meðfylgjandi fylgiskjali. Þá er hugtakið „sveigjanlegt verðbólgumarkmið“ nefnt sem lausn í athugasemd greinargerðarinnar við fyrri umsögn undirritaðs en hvergi annars staðar í frumvarpinu eða greinargerðinni er fjallað um það hugtak. Ekki verður séð að meintur sveigjanleiki hins íslenska seðlabanka geri hann frábrugðinn þeim bandaríska, evrópska eða nýsjálenska sem vísað er til í áðurnefndu fylgiskjali.

Velta verður fyrir sér spurningunni um það hve háu verði samfélagið eigi að vera tilbúið að greiða fyrir það að ná verðbólgu til dæmis úr 4% niður í 2% sem er hið almenna verðbólgumarkmið víða um heim, eða 2,5% eins og það er skilgreint hérlendis. Ekki liggur fyrir nein góð greining á því hvers vegna önnur hvor þeirra talna sé betri en hin, eða 3% eða eitthvert annað tölulegt markmið. Eins og Alan Blinder, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri í Bandaríkjunum, benti á í bók sinni Hard Heads, Soft Hearts vill samfélagið ekki og ætti ekki að vilja greiða það mjög dýru verði að ná tölulegu markmiði — með því að lækka verðbólgu til dæmis úr 4% í 2%. Vega þarf og meta kosti og galla mismunandi þátta í hinu flókna samspili sem hagkerfið er og stórhættulegt getur reynst að trúa því að um eðlisfræðileg lögmál með föst tölugildi sé að ræða þegar fólk í samfélagi á í hlut.

Í ljósi ofangreindra röksemda og meðfylgjandi fyrri umsagnar þar sem finna má sögulega yfirferð á mikilvægi markmiðs varðandi atvinnu eða vinnumarkað er ítrekuð sú ábending til Alþingis að bæta við hinu fjórða markmiði í 2. gr. frumvarps til laga um Seðlabanka Íslands varðandi vinnumarkað, sem sé jafnsett en ekki undirsett hinum þremur markmiðunum. Þannig er tryggt að Seðlabankinn vinni ekki gegn hagsmunum þegna landsins með ákvörðunum sínum og beitingu stýritækja og þar af leiðandi er bæði betri og tryggari stöðugleika náð. Með þessu verður sjálfstæði Seðlabankans tryggt til framtíðar þannig að hann vinni að almannahag á margvíslegan máta og geti með því móti öðlast að nýju það traust sem honum ber og er nauðsynlegt til að starfsemi hans verði árangursrík í samfélaginu.“

Hæstv. forseti. Þetta eru ansi merkilegar umsagnir og segja manni að menn vilja vanda til verka og læra af reynslu fyrri ára og áratuga þegar m.a. kemur fram að taka skuli mið af krísum sem ná fleiri áratugi aftur í tímann. Ég man þá gömlu daga þegar talað var um efnahagskreppuna miklu 1929 og það er vitnað í hana í þessari umsögn. Síðan muna allir í dag eftir krísunni 2008.

Ég upplifði ekkert annað en góðæri frá því að ég man eftir mér og þangað til 2008 með einhverjum smádýfum kannski inn á milli og það er svo skrýtið að þegar maður hefur upplifað góðæri heldur maður að ekkert slæmt geti skeð seinna meir. En þegar menn sem eru bæði með menntun og reynslu í þessum málum og fjalla um þetta á þennan veg fyllist maður öryggistilfinningu. Það er greinilegt að allir aðilar vilja vanda sig, enda hljómar þetta frumvarp um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins í mínu höfði ansi vel vegna þess að það er gott að þessi öfl geti unnið sameiginlega undir sama þaki. Einhvers konar sambandsleysi þar á milli fékk einmitt miklar ákúrur í efnahagshruninu 2008, hvernig sem á því stóð, og var talað töluvert um það.

Mig langar að lokum að vitna aðeins í nefndarálit 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem er stutt og laggott en rammar svolítið inn hvernig sá sem hér stendur lítur á málið, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur verkefnisstjórn um endurskoðun lagaumgjarðar um Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlit eiga hrós skilið fyrir vönduð og fagmannleg vinnubrögð við smíði þeirra frumvarpa sem hér eru til umfjöllunar. Þá telur 2. minni hluti vinnu efnahags- og viðskiptanefndar um málin hafa verið góða og breytingartillögur meiri hlutans við frumvarpið vera til bóta. Hins vegar telur 2. minni hluti að skynsamlegt sé að fresta samþykkt frumvarpanna um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar að ýmsum álitamálum sem enn er ósvarað, ekki síst vegna ábendinga úr mörgum áttum þar sem varað er við því að viðskiptaháttaeftirlit verði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.“

Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti, og ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni.