149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[20:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að ég sé í hliðarsal glitta í hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar. Ég er mjög ánægður með að hann skuli fylgjast með umræðum um þessi tvö mál og þá einkanlega þeirri ræðu sem verður flutt nú.

Það virðist vera siður hjá þessari ríkisstjórn að draga úr hömlu að koma með mál inn í þingið þangað til alveg á síðustu stundu og þá að afgreiða allt í einum logandi hvelli. Ég gæti nefnt mjög mörg dæmi um þetta, þar ber náttúrlega hæst þingsályktunartillöguna um þriðja orkupakkann sem átti að böðla í gegn með engum umræðum, þó að þær ráðagerðir hafi nú aðeins breyst. Nú koma fram tvö frumvörp um Seðlabanka Íslands og um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Ég ætla að taka fram í upphafi máls míns að það er ekkert að því hvernig þessi mál hafa verið undirbúin sem slík. Undirbúningurinn hefur verið mjög vandaður. Umfjöllunin bæði í undirbúningsnefnd og hvernig hún kynnti málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og allt slíkt — allt það var til fyrirmyndar. Það breytir ekki því að ég hef óbeit á þessum málum tveimur.

Ég veit ekki hvort þeir sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi yfir höfuð hafa tekið eftir því að sá sem hér stendur hefur verið gagnrýninn á störf Seðlabankans mjög lengi. Ekki síst vegna þess að mér hefur fundist að Seðlabanki Íslands hafi á undanförnum árum gert hagstjórnarmistök, sérstaklega hvað varðar stýrivaxtaákvarðanir. Nú er það ekki svo að sá sem hér stendur vilji hamla sjálfstæði Seðlabankans, síður en svo. Ég fer hins vegar ekki ofan af því að Seðlabankinn hefur gert taktísk og hagstjórnarleg mistök undanfarandi ár, einkum hvað varðar, eins og ég segi, ákvörðun stýrivaxta. Þá vil ég sérstaklega taka til árið 2015. Í undirbúningi kjarasamninga þá taldi sá sem hér stendur að væri lag til þess að lækka stýrivexti verulega. Því miður var það ekki gert og það kostaði það að verðbólga hér, og ég tala nú ekki um vextir, hafa verið töluvert miklu hærri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Á sínum tíma stóðu t.d. norsk yfirvöld, það er Seðlabanki Noregs, frammi fyrir þeim kosti að þar var há verðbólga og Seðlabanki Noregs greip til þess ráðs að lækka stýrivexti mjög myndarlega í stórum skrefum. Ef ég man rétt fóru stýrivextir í Noregi á einu ári úr eitthvað um 4% niður í um u.þ.b. 2%. Síðan enn neðar og þeir eru núna, ef ég man rétt, í 0,25% eða eitthvað slíkt og búnir að vera nokkuð lengi. Þetta varð til þess, í stuttu máli, að verðbólga í Noregi lækkaði gríðarlega mikið á mjög stuttum tíma.

Þetta kemur m.a. fram í mjög góðri BS-ritgerð sem ég kom höndum yfir nýlega sem er gerð af ungri konu sem er okkur mjög vel kunn í Miðflokknum og heitir Hallfríður Hólmgrímsdóttir. Þessi BS-ritgerð, sem ég mun örugglega gera betur grein fyrir opinberlega á næstunni með einhverjum hætti, hefur að niðurstöðu að til þess að lækka verðbólgu dramatískt, eins og maður segir, virkaði þetta ráð sem Norðmenn gripu til, þ.e. að lækka stýrivexti í mjög stórum skrefum á mjög stuttum tíma, gríðarlega vel. Hér á landi höfðu menn ekki kjark til að gera þetta árið 2015, illu heilli, og ég velti því fyrir mér, og hef reyndar leitað í smiðju til nokkurra fagmanna sem vit hafa á, hvaða afleiðingar það hefði haft í för með sér ef stýrivextir hefðu verið lækkaðir t.d. um 2% þarna um mitt ár 2015. Ég held að það sé næsta víst að hægt sé að slá því föstu að við hefðum ekki að þeirri aðgerð gerðri fengið aðra eins hækkun og styrkingu á gengi krónunnar og raun varð þar á eftir.

Þessi styrking krónunnar hins vegar hafði, eins og allir vita, mjög alvarleg áhrif á t.d. ferðaþjónustu og sérstaklega fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það má með nokkrum rökum segja að þessi hágengisstefna hafi átt þátt í því að annað stóra flugfélagið okkar féll og hitt stóra flugfélagið okkar hefur verið í mótvindi. Þó að allt líti vel út á þeim bæ hefur ekki farið á milli mála að þetta sterka gengi hefur valdið þeim erfiðleikum.

Ég vil líka nefna að þrátt fyrir það — og ég vil ítreka að ég vil ekki takmarka sjálfstæði Seðlabankans — hefur Seðlabankinn ekkert farið sérstaklega vel með sjálfstæði sitt. Ég vil nefna t.d. nýleg mál sem tengjast gjaldeyriseftirliti og þar sem ekki eru öll kurl komin til grafar. Við vitum ekki enn þá hvort íslenska ríkið verður fyrir málshöfðun vegna aðgerða Seðlabankans í einu ákveðnu máli í gegn einu ákveðnu fyrirtæki. Það er alveg eins líklegt að það verði höfðað skaðabótamál á hendur Seðlabankanum vegna framgöngu hans og seðlabankastjóra og æðstu stjórnenda bankans í því máli. Þannig að það eru m.a. þessi spor sem hræða nokkuð og það er líka þess vegna sem þetta ágæta frumvarp um Seðlabankann sjálfan veldur mér að vissu leyti vonbrigðum. Vegna þess að ég taldi að menn myndu kannski styrkja aðra kosti en verðbólgumarkmiðið fyrir Seðlabankann sjálfan til þess að hann fengi frjálsari hendur og betri verkfæri til að halda hagstjórn í lagi.

Ég man ekki betur, herra forseti, en að á kynningarfundi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi einn af forgöngumönnum undirbúningsnefndarinnar að samningu þessara frumvarpa talað um að hagkerfi sem eru með örmynt, ef við getum orðað það þannig, eins og íslenska krónan er séu, að mig minnir, u.þ.b. 80 talsins í heiminum. 78 þeirra eru með hagstjórn sem byggist á einhverju öðru en bara verðbólgumarkmiðum. Það má telja mér það til lasts, herra forseti, að ég hef ekki komist að því enn þá hvaða ríki það er sem er hitt ríkið af þessum tveimur. Ísland er annað og ég hef ekki getað komist að því og ekki gefið mér tíma til að komast að því hvert hitt ríkið er sem fylgir sömu stefnu og við í hagstjórn, þ.e. verðbólgumarkmið hvað sem tautar og syngur.

Þetta eru kannski stóru vonbrigðin, fyrir utan það að nú stendur til að skipa seðlabankastjóra, ráðningarferlið er í fullum gangi. Það á sem sagt núna að skipa seðlabankastjóra áður en þessi lög, sem við erum núna að fara að breyta, taka gildi. Nýr seðlabankastjóri verður ráðinn á grundvelli núverandi laga um Seðlabanka Íslands en kemur síðan til með að starfa eftir alveg nýjum lögum, ef þau verða samþykkt. Ég tel þetta til vansa. Ég verð að segja það. En það sem stendur reyndar upp úr að mínu áliti í þessu frumvarpi um Seðlabankann sem hér liggur fyrir eru þessar mannmörgu nefndir og ráð sem á að skipa. Í fyrsta lagi, herra forseti, á að ráða þrjá aðstoðarseðlabankastjóra. Einn af þessum aðstoðarseðlabankastjórum á í raun réttri að stýra Fjármálaeftirlitinu en hluti af því hefur aftur eftirlit með starfsemi Seðlabankans en heyrir undir aðalseðlabankastjórann. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp, herra forseti, alls ekki. Þarna verða fjórir seðlabankastjórar, einn aðal og þrír vara. Síðan verða þrjár nefndir, peningastefnunefnd og hvað þær nú heita allar. Ég sé ekki betur en það sé stefnt að því að þar séu einhverjar sirka þrjár u.þ.b. 20 manna nefndir sem eigi að vera bankanum til ráðgjafar. Síðan eiga þær að koma einu sinni til fjórum sinnum á ári fyrir þingnefnd og skýra frá afrekum sínum á yfirstandandi ári. Mér finnst þetta ekki skilvirkt, herra forseti, en kannski er ég bara að misskilja hlutina svona gjörsamlega. Ég vona samt og held því fram að svo sé ekki.

Bara þetta atriði, því ég veit að þessi undirbúningsvinna var góð og vönduð og tók langan tíma, en svo koma menn með þetta mál núna á síðustu stundu inn í þingið og það á að afgreiða það nánast án umræðna hér í þingsal. Eins og svo mörg önnur mál núna undanfarandi. Þetta er náttúrlega, herra forseti, ekki gott. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð, alls ekki. Ég hefði fagnað því mjög ef umræðan um þessi tvö frumvörp, af því nú er ég svo sem einungis búinn að tala um seðlabankafrumvarpið sjálft, hefði fengið vandaðri meðferð, ég tala nú ekki um að ef menn hefðu bara einfaldlega frestað báðum þessum málum til þess að þau geti fengið betri yfirferð, sérstaklega í þingsal, og alvöru umræður, en ekki að það sé hlaupið til á síðustu dögum þingsins. Ég skil bara ekki þá framgöngu.

Það er eins, í sjálfu sér, með sameininguna. Ég skal fúslega viðurkenna að þessi sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka hugnaðist mér í upphafi mjög vel að mörgu leyti. Menn voru jú að tala um meiri slagkraft í starfseminni. Það kom reyndar fram að það ætti engin hagræðing að vera af því að það átti ekki að því að fækka starfsmönnum um einn heldur átti að búa til einhverja ofurstóra ríkisstofnun upp á 300 manns. Af því að sameinað Fjármálaeftirlit og Seðlabankinn verður 300 manna stofnun. Að auki, eins og ég segi, sjálfstæð, eins og fram hefur komið, sem þýðir það í raun að hún verður ósnertanleg ráðherra á hverjum tíma. Nú eru það bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra í sjálfu sér sem að koma. Þeir geta í sjálfu sér ekki beitt sér á einn eða neinn hátt ef þeim þykir eitthvað athugavert. Það eru þessir hlutir sem valda mér vonbrigðum.

Síðan get ég alveg sagt það hreinskilnislega, af því að ég hafði í sjálfu sér mikla trú á því á þessum slagkrafti og þessari auknu þekkingu sem myndi safnast inn í Seðlabankann með því að Fjármálaeftirlitið kæmi þar inn, að síðan heyrir maður varnaðarorð frá mjög mætum mönnum sem kunna mjög vel til verka. Þar nefni ég fremstan og fyrstan til Gylfa Zoëga prófessor sem er nú einn af nefndarmönnum í peningastefnunefnd Seðlabankans því öllum hnútum kunnugur, fyrir utan að vera afbragðs fær fræðimaður. Því það er hann svo sannarlega. Hann hefur lýst miklum efasemdum um þessa sameiningu. Þegar maður heyrir vandaða fræðimenn koma fram með svo sterk varnaðarorð eins og Gylfi Zoëga hefur gert í þessu tilfelli eiginlega getur maður ekki annað en hlustað eftir því sem þeir segja. Og eins og ég hef sagt það áður hér í þessum stól og á eftir að segja örugglega aftur: Svona einn af stærstu göllum íslenskra stjórnmálamanna — og kannski er þetta alþjóðlegt vandamál, ég veit það ekki — er tregðan til að játa að þeir hafi rangt fyrir sér, tregðan til að athuga mál betur þegar þeir jafnvel sjá og vita að málin eru ekki alveg jafn bein og breið og menn héldu í upphafi. Það er mikill ljóður á okkar ráði að segja þá ekki við okkur sjálf: Stöldrum aðeins við. Tökum þessi mál aðeins til endurskoðunar, förum yfir þessa gagnrýni, förum yfir þessar ábendingar, förum yfir þessar ráðleggingar sem er búið að beina til okkar. Og ef við erum jafn sannfærð eftir að hafa gaumgæft þetta allt um að rétt sé að fara fram eins og kemur fram í þessum tveimur frumvörpum, þá skulum við gera það. En ég skil ekki þá tregðu að vilja ekki gaumgæfa varnaðarorð manna eins og Gylfa Zoëga, ég bara skil hana ekki. Ég segi það aftur að við stjórnmálamenn tökum ákvarðanir um mál oft byggðar á ráðgjöf annarra. Vegna þess að eðli máls samkvæmt getum við ekki sett okkur ofan í smáatriði hvers máls sem hér inn ratar. Þess vegna verðum við að reiða okkur á sérþekkingu annarra sem gefa okkur álit og umsagnir o.s.frv.

En það er með öllu óverjandi ef við skella skollaeyrum við áliti og ráðleggingum færustu manna á þessu sviði. Þess vegna hefði ég talið að best af öllu hefði verið að við hefðum frestað afgreiðslu þessara mála beggja. Við hefðum farið yfir þau einu sinni en þá, gagnrýnið og með fyrir augum þær ráðleggingar og þær ábendingar og þá gagnrýni sem menn á borð við borð við Gylfa Zoëga hafa sett fram. Vegna þess að við þekkjum það, herra forseti, og við skulum ekkert loka augunum fyrir því, að á hverju þingi nánast erum við að samþykkja mál sem þarf að taka upp að einhverju leyti, stundum litlu leyti, stundum í grundvallaratriðum, eiginlega örskömmu eftir að þau eru afgreidd og samþykkt á Alþingi Íslendinga. Ég held bara að sú reynsla ein og sér ætti að segja okkur og sýna að við þurfum að gæta að okkur. Þegar við tökum upp jafn mikilsverða og mikilvæga lagasetningu og lagaumgjörð og lög um Seðlabanka Íslands held ég að við skuldum okkur sjálfum það, og náttúrlega þjóðinni, að við vinnum þessi mál eins vel og við mögulega getum. Á það finnst mér skorta hér.

Og nú endurtek ég það sem ég sagði í upphafi: Þessi mál eru vel undirbúin. Það er búinn að fara mikill tími í að undirbúa þau. En meðferð þingsins á allri þessari vinnu sem búið er að vinna er ekki til fyrirmyndar, nema síður sé. Í sjálfu sér finnst mér að við séum með því að fara flausturslega yfir þessi mál og flaustra þeim í gegnum þingið á síðustu dögum þings að gera lítið úr þeirri vinnu sem það ágæta fólk vann sem undirbjó þessi mál svo vel sem það gerði.

Það breytir ekki þeirri skoðun minni að t.d. frumvarpið um Seðlabankann hugnast mér ekki eins og það er sett upp. Ég skil ekki af hverju menn notuðu ekki tækifærið fyrst það var verið að taka þessi lög upp og gerðu þær grundvallarbreytingar sem hefðu getað komið að góðu, Seðlabankanum og okkur öllum.

Þannig að ég segi aftur, herra forseti: (Forseti hringir.) Við skulum gaumgæfa þessi mál betur, taka þau til hliðar og fresta þeim aðeins.