149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[22:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef áður minnst á það í kvöld að með þeirri breytingu sem gerð er á yfirstjórn Seðlabankans með þessu frumvarpi eru færð mjög mikil völd í hendur eins manns. Í sjálfu sér höfum við reynslu af því að svo hafi verið núna undanfarin ár með ekki mjög góðum árangri. Ég vil nefna aftur sérstaklega, herra forseti, það mál sem kennt hefur verið við útgerðarfélagið Samherja þar sem Seðlabanki Íslands hefur orðið ber að því að fara langt fram úr valdheimildum sínum. Það gæti verið að hann hafi bakað ríkissjóði, sem ber ábyrgð á Seðlabankanum, skaðabótaskyldu. Það ætti náttúrlega að vera okkur víti til varnaðar, herra forseti, og hefði átt að vera kveikjan að því að breyta þessu skipulagi með einhverjum hætti.

Eins og við vitum er bankaráðs Seðlabankans, sem er hlutfallslega kosið hér á Alþingi, í sjálfu sér ekkert annað en ráðgefandi aðili til seðlabankastjóra sem út af fyrir sig fer sínu fram eftir því sem hans lund stendur til, eins og við höfum orðið vitni að núna undanfarið. Þessu hefðum við átt að breyta í þessu nýja frumvarpi að mínu mati. Þá kem ég enn að því að þessir ágætu yfirburðaeinstaklingar, sem ég vil kalla svo, sem skipuðu á sínum tíma þá nefnd sem undirbjó þetta mál — það er eins og leiðsögnin eða skipunarbréfið sem þeir fengu í upphafi hafi þrengt að þeim, bundið hendur þeirra á einhvern hátt. Vegna þess að niðurstaðan er svo langt frá því að vera á þeim faglegu, þekkingarlegu nótum sem þetta fólk er þekkt af. Það eru náttúrlega mikil vonbrigði og þess vegna eigum við að taka þetta mál til hliðar. Þess vegna eigum við að fara aftur yfir bæði málin. Við eigum að fara yfir þau og við eigum að taka mark á þeim góðu ráðleggingum sem við höfum fengið til þess að reyna að gera málin betur úr garði heldur en þau eru í dag.

Það er ekkert gamanmál þegar mál koma upp eins og það sem tengist Samherja. Það er ekkert gamanmál að það skuli vera mættur her fjölmiðlamanna í húsleit hjá fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum. Það er stórmál. Þetta getur skaðað og hefur örugglega skaðað ímynd fyrirtækisins út á við, jafnvel ímynd Íslands. Það þarf náttúrlega, herra forseti, með einhverjum hætti að leiðrétta það sem þarna var gert. Það verða einhverjir að axla ábyrgð út af því. Og ég segi aftur: Við eigum að láta þetta verða okkur víti til varnaðar um að fela ekki svo mikið vald í hendur eins manns eins og gert er ráð fyrir í þessum nýju lögum um Seðlabanka Íslands. Stofnun sem telur 300 manns, ein fjölmennasta stofnun á Íslandi, sjálfstæð — undir stjórn eins manns sem þarf varla að svara fyrir sín störf á nokkurn einasta hátt. Nema þannig að starfið er hans eða hennar er auglýst á fimm ára fresti. Tvisvar. Þá er starfstíma viðkomandi lokið.

Á þessum tíma, tvisvar sinnum fimm árum, er hægt að stíga skref sem er ekki mjög gott að leiðrétta með nokkrum auðveldum hætti. Þannig að ég segi aftur: Við þurfum að flýta okkur hægt í þessu máli, herra forseti. Við þurfum að fresta þessum málum. Við þurfum að hlusta á ráðgjöf bestu manna sem hafa þegar stigið fram, gefið góð ráð og veitt okkur varnaðarorð. Við þurfum að hlusta á þau, herra forseti, þurfum að geyma þessi mál fram á haustið. Við þurfum að vinna þau betur og gera þau betur úr garði.