149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvar hv. þingmaður er staddur. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að það þarf að bregðast við dómnum. Var einhver að draga það í efa? Það var enginn að draga það í efa. En ég vil gjarnan nota tækifærið, fyrst hv. þingmaður kannast greinilega ekki við það, eða vill ekki kannast við það, og benda á að Miðflokkurinn hefur flutt tvö þingmál á þessu þingi er varða einmitt hag neytenda þegar kemur að landbúnaðinum. Annað þingmálið fjallar m.a. um að það verði sett á matvælavörurnar hvert kolefnissporið sé til að neytendur geti gert sér grein fyrir kolefnisspori vörunnar þegar þeir versla. Það var frá hv. varaþingmanni Þorgrími Sigmundssyni.

Síðan fluttum við annað þingmál sem er líklega fast í nefnd hv. þingmanns sem hefði verið nær að afgreiða það mál. Það snýr að því að í verslunum séu neytendur upplýstir um hvaða lyfjainnihald sé mögulega í vöru sem þeir ætla að kaupa, að neytendur geti valið í versluninni um vöru sem er alin og framleidd á stað þar sem er notað lítið af lyfjum í stað vöru þar sem notað er mikið af lyfjum. Af hverju afgreiddi hv. formaður nefndarinnar það ekki út úr nefndinni? (HSK: Var það fullfjármagnað?) Af hverju var það ekki afgreitt?

Þetta er nefnilega vandinn, virðulegur forseti, sem við stöndum frammi fyrir hér. Það hafa komið fram góð mál er snerta þetta, góð mál til að upplýsa neytendur um hvaða hætta getur verið á ferðinni — en þau hafa ekki fengist afgreidd úr nefndinni hjá hv. formanni þessarar atvinnuveganefndar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég fagna þessu máli og ég fagna breytingunum hjá nefndinni. Þær eru til bóta, það er engin spurning. Þær eru til bóta — en við verðum að tryggja að þetta gangi eftir. Það er það sem ég efast um og sem ég sakna í afgreiðslu frá nefndinni, að þessar góðu hugmyndir séu allar settar í tímasetta röð og tryggt að fjármagnið fáist. (Forseti hringir.) Ég treysti alveg hv. þingmanni til að berjast fyrir fjármagninu en ég veit ekki hvernig afgreiðslan á því verður hins vegar hjá ríkisstjórn.