149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[23:03]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú í júní eru 50 ár liðin frá því að fyrsta konan var skipuð prófessor. Það var doktor Margrét Guðnadóttir veirufræðingur. Margrét var skipuð prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Gegndi hún þeirri stöðu í 30 ár. Margrét var dugleg að benda okkur á þá sérstöðu sem Íslendingar byggju við hér á landi vegna legu landsins, sérstöðu sem við þyrftum að verja. Það væri mikilvægt að við afsöluðum okkur ekki réttinum til að ráða sjálf sóttvarnamálum okkar. Í lok álitsgerðar sem dr. Margrét gaf vegna innflutnings á kjöti fyrir tíu árum segir hún, með leyfi forseta:

„Að lokum vil ég minna á þá staðreynd, að margar kynslóðir af góðu fólki lögðu á sig ómælda vinnu til að koma íslensku heilbrigðisástandi og matvælaeftirliti þangað, sem það er núna. Það gerðist ekki á einum degi með samþykkt laga, heldur með þrotlausri vinnu. Höldum henni áfram.“

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins um innflutningstakmarkanir á ferskum matvælum til landsins. Við framlagningu málsins voru kynntar aðgerðaáætlanir til að tryggja vernd lýðheilsu og búfjár og standa vörð um hagsmuni neytenda.

Ég hef verið nokkuð sannfærð um að hagsmunir bænda og neytenda fari saman þegar varað er við innflutningi á matvælum. Þingflokkur Framsóknarflokksins setti fyrirvara um frumvarpið í vetur um að sömu gæðakröfur yrðu gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu og enn fremur að lýðheilsa hlyti ekki skaða af innflutningi sýktra matvæla. Því hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga frá atvinnuveganefnd sem boðar aðgerðaáætlun í 17 liðum. Sú tillaga fylgir eftir áherslum Framsóknarflokksins í þeim málum.

Eðlilega þarf að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins og það verður gert með samþykkt þessa frumvarps og styð ég það, að því gefnu að þingsályktunartillagan sem fylgir þessu máli fái góðan hljómgrunn.