149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[14:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Því miður gafst mér einungis tækifæri til þess að flytja eina ræðu um þetta stóra viðfangsefni við 2. umr. málsins í ljósi þess að þá var leitast við að greiða fyrir þingstörfum sem eru auðvitað komin langt fram yfir áætlun. Fyrir vikið vil ég nota tækifærið hér í 3. umr. til að halda áfram með þá yfirferð sem ég hóf í 2. umr. Ég ætla að byrja á því að rekja mjög stuttlega það sem ég kom inn á í 2. umr. til að setja hlutina í samhengi við það sem kemur svo í framhaldinu. Ég benti þá á að það væri allt of algengt að þegar menn fengjust við stór og flókin viðfangsefni væri leitað í það sem ég held að ég hafi kallað sýndarlausnir. Mér hefur jafnvel virst vera fylgni milli þess að þeim mun stærri sem málin eru, a.m.k. þeim mun meira sem þau eru í umræðunni, þeim mun meiri tilhneiging er til að bregðast við með sýndarlausnum, a.m.k. með lausnum sem geta virst sýnilegri en aðrar lausnir sem kunna að vera flóknari og ekki eins áberandi. Þegar mál fá eins mikla umfjöllun og loftslagsmálin hafa fengið að undanförnu verður þetta sérstaklega áberandi og birtist í aðgerðum sem jafnvel er mjög vafasamt að skili nokkrum árangri og geta jafnvel haft neikvæð áhrif. Ég nefndi sem dæmi þá miklu áherslu sem nú virðist vera lögð á að moka ofan í skurði án þess að sýnt hafi verið fram á árangurinn af því. Ég fór líka yfir að svona viðbrögð verða til þess að litið er fram hjá því sem raunverulega virkar.

Nú liggur fyrir að orkuþörf heimsins mun aukast jafnt og þétt á komandi árum. Hún hefur aukist um u.þ.b. 2% á ári í ein 40 ár, sem er auðvitað gríðarlega mikið, og útlit er fyrir að sú verði raunin áfram. Ætli menn sér að bregðast við þessari auknu orkuþörf eingöngu með orkugjöfum sem skilgreindir eru sem endurnýjanlegir orkugjafar mun framleiðslan einfaldlega ekki nægja til að standa undir hinni auknu eftirspurn. Það mun þýða að áfram verða grafin upp kol og þau brennd til að framleiða orkuna. Það eitt og sér að draga úr kolabruna við orkuframleiðslu skiptir gríðarlegu máli enda er það sú aðferð sem að jafnaði losar langmest af gróðurhúsalofttegundum.

Ég nefndi Bandaríkin í þessu sambandi. Þeim hefur tekist að minnka talsvert losun gróðurhúsalofttegunda, ekki hvað síst með því að færa orkuframleiðslu jafnt og þétt frá kolabrennslu yfir í gasbrennslu. Slíkar aðgerðir verða menn að hafa til hliðsjónar og meta heildarmyndina og langtímaáhrifin af þeim aðgerðum sem ráðist er í. Ég vildi líka nefna sérstaklega, til að setja það í samhengi hversu erfitt er að mæta sívaxandi eftirspurn eftir orku, að ef menn ætluðu sér að mæta þeirri árlegu eftirspurn eingöngu með vindmyllum sem eru nú mjög í tísku þyrfti að setja upp á einu ári jafn margar vindmyllur og höfðu verið settar upp frá árinu 2000 fram til ársins 2014 og þær myndu þekja svæði sem væri jafn stórt og Bretlandseyjar; Bretland og Írland samanlagt. Þetta er reyndar samkvæmt tölum frá fræðimanninum Matt Ridley 2014.

Við sjáum, frú forseti, að það er ekki raunhæft.

Svo er annað mál að það er líka vafa undirorpið hversu umhverfisvænar vindmyllurnar í raun eru, enda framleiddar úr stáli og steinsteypu sem að miklu leyti er framleitt í Kína með kolabruna. Svo mæta menn á loftslagsfundi víða um heim til að ræða málin og þar með talið í Davos í Sviss þar sem ýmiss konar forystufólk úr viðskiptalífi og stjórnmálum og af öðrum vettvangi kom saman nýverið til að ræða vandann sem steðjar að heimsbyggðinni með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda. Til Davos mættu þátttakendur á 1.600 einkaþotum. Það var víst erfitt að koma flotanum öllum fyrir á flugvellinum í Zürich og þær þurftu að lenda víðar fyrir vikið. Því miður er þetta allt of lýsandi dæmi um það hversu yfirborðskennd umræðan um þennan málaflokk er oft og tíðum.

Sameinuðu þjóðirnar halda reglulega loftslagsráðstefnur og það er áhugavert að sjá súlurit um það hversu mikil fjölgun þátttakenda er á þessum ráðstefnum frá einni ráðstefnu til þeirrar næstu og eru núna margfalt fleiri en þeir voru á fyrri ráðstefnum. Nánast allt þetta fólk kemur með flugi.

Svo þarf að setja þessa hluti í samhengi líka við önnur verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir. Það var áhugavert að sjá í fréttum í Bretlandi nýverið að fjármálaráðherra þess lands teldi að sú stefna sem hefur verið mörkuð í Bretlandi um viðbrögð við losun gróðurhúsalofttegunda myndi kosta samfélagið 1.000 milljarða punda, sem nemur um 160.000 milljörðum kr. Það fylgdi sögunni að það myndi óhjákvæmilega þýða að menn þyrftu að spara annars staðar, m.a. í heilbrigðisþjónustunni. Það sem er kannski enn þá verra er að það er miklum vafa undirorpið hversu miklum árangri aðgerðirnar skila því að allt of oft eru þær einmitt sýndaraðgerðir.

Bent hefur verið á að samkvæmt tölum úr gagnagrunni Sameinuðu þjóðanna sjálfra muni Parísarsamkomulagið því miður hafa sáralítil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun jarðar, jafnvel þó að samkomulaginu yrði fylgt í þaula. Allt of oft er samkomulagi sem þessu ekki fylgt og má kannski segja að fram til þessa hafi það verið undantekning hafi menn staðið við gefin fyrirheit.

Af hverju rek ég þetta? Jú, vegna þess að ef okkur er alvara með að bregðast við loftslagsvánni þurfum við að leggja mat á hvað sé vænlegast til árangurs. Eitt af því sem getur skipt sköpum í þessum efnum á komandi árum og áratugum er sorpbrennsla, eins merkilegt og það kann að virðast. Brennsla heimilissorps er með umhverfisvænustu aðferðum til að framleiða orku með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og jafnvel annarrar mengunar. Plastið hefur verið helsta vandamálið og plast er mikið rætt í tengslum við stefnu í umhverfismálum. Nú hefur verið þróuð tækni til að brenna plast með álíka umhverfisvænum hætti og jarðgas, með því á vissan hátt að breyta plastinu fyrst í gas og nýta svo til orkuframleiðslu. Þetta er dæmi um lausn sem getur skilað margþættum árangri, getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda við orkuframleiðslu en um leið hjálpað mikið til að takast á við þann vanda sem felst í plastmengun, ekki hvað síst í hafinu, og þann mikla vanda sem margar þjóðir standa frammi fyrir við sorpförgun. Eins og menn væntanlega þekkja losa sorphaugar verulegt magn gróðurhúsalofttegunda.

Það sem ég legg því til, frú forseti, og vona að menn líti á sem meginskilaboð mín hér, er að við lítum til staðreynda, lítum á heildaráhrifin til langs tíma og lítum til vísinda við lausn þessa gríðarlega stóra viðfangsefnis. Um leið er ljóst að hefðbundnar aðgerðir á borð við landgræðslu og skógrækt skipta gríðarlega miklu máli. Ég vildi sjá miklu meira fjármagn renna í þá málaflokka á Íslandi en þá skiptir mestu máli að þeim skógum sem binda hvað mest af gróðurhúsalofttegundum sé ekki fargað í stórum stíl á sama tíma, eins og því miður er raunin, ekki hvað síst í Suður-Ameríku. Haldi eyðing regnskóganna í Suður-Ameríku áfram á sama hraða og við höfum horft upp á á undanförnum árum veldur það meiri skaða í loftslagsmálunum en flest annað.

Ég er ekki viss um að það sé gagnlegt í þessu stóra viðfangsefni að einfaldlega breyta um hugtakanotkun. Það er kannski enn eitt dæmið um það hversu yfirborðskennd umræðan er oft og tíðum. Það á ekki bara við um þennan málaflokk, heldur allt of marga málaflokka nú til dags, að menn finna upp ný hugtök yfir hlutina og telja að með því sé einhverjum árangri náð, til að mynda að fara að tala um loftslagshamfarir. Það er heldur ekki gott að gefa til kynna að áhrifin séu önnur en þau raunverulega eru. Við höfum séð á undanförnum áratugum að menn hafa komið með miklar yfirlýsingar sem svo hafa ekki gengið eftir. Af hverju veldur þetta mér áhyggjum? Vegna þess að það getur leitt til þess að almenningur hafi smátt og smátt minni trú á að vandinn sé yfir höfuð fyrir hendi.

Líka hafa heyrst ýmiss konar yfirlýsingar á borð við að hvirfilbyljir og ýmiss konar óveður hafi aukist mjög vegna hlýnunar eða losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta stenst ekki nánari skoðun. Hins vegar hefur tjónið af völdum slíkra hamfara aukist mjög frá fyrri áratugum en það er ekki hvað síst vegna þess að það hefur svo mikið verið byggt á þeim svæðum þar sem slíkt veðurfar er algengast. Ég nefni bara eitt dæmi, Flórída í Bandaríkjunum og fylkin í kringum Mexíkóflóa. Tjónið hefur fyrir vikið aukist án þess að tíðni þessara hvirfilbylja hafi aukist. Það breytir ekki því að vandann þarf að taka föstum tökum og það þarf að leysa hann út frá staðreyndum og með hjálp vísindanna. Þegar orkuþörfin mun aukast jafnt og þétt um fyrirsjáanlega framtíð, og hefur auðvitað aukist alveg gífurlega í þeim löndum sem hafa vaxið hvað hraðast eins og Kína og Indlandi, þurfum við á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í öðru alþjóðlegu samstarfi að ná samkomulagi sem tekur mið af raunverulegum staðreyndum og aðgerðum sem eru til þess fallnar að skila raunverulegum árangri.

Ég vil að endingu ítreka það sem ég nefndi í 2. umr., að Ísland leggur svo sannarlega sitt af mörkum þó að við reynum jafnt og þétt að gera betur. Ál sem framleitt er á Íslandi losar einn tíunda af því sem slík framleiðsla myndi losa í Kína. Bara með þeirri álframleiðslu og endurnýjanlegri umhverfisvænni orku á Íslandi má því segja að við leggjum þegar mikið til málanna en við getum sannarlega gert enn þá betur.