149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

dánaraðstoð.

969. mál
[13:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við greiðum ekki atkvæði um það hvort leyfa eigi dánaraðstoð og lögleiða það í íslenskan rétt. Við erum hér að greiða atkvæði um skýrslubeiðni, um að taka saman upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum og öðrum löndum sem við berum okkur saman við, auk þess sem verið er að fara fram á skoðanakönnun sem gerð yrði meðal heilbrigðisstarfsmanna um viðhorf þeirra til dánaraðstoðar.

Ég sé á töflunni að það lítur út fyrir að þetta sé samþykkt og ég fagna því mjög og er þingheimi þakklát fyrir það. Á sama tíma verð ég að lýsa furðu minni á að ákveðnir aðilar séu mótfallnir því að teknar séu saman upplýsingar með þessum hætti. Ef upplýsingarnar eru á þá leið að hér inni ákveði einhverjir þingmenn að koma seinna með frumvarp sem myndi leyfa dánaraðstoð verður örugglega gefið nægt rými í slíka umræðu, umsagnir og annað þess háttar.

Ég fagna þessari afstöðu þings, að leyfa þessa upplýsingaöflun og skýrslugjöf, og hlakka til að fá skýrslu frá hæstv. heilbrigðisráðherra í hendurnar.