149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[13:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í umræðunni en hún er orðin svolítið spennandi. Ef við setjum hlutina í samhengi mætti að sjálfsögðu lækka laun ráðamanna. Ég og við Píratar höfum lagt ítrekað til að laun þingmanna og ráðherra yrðu lækkuð þar sem þau fóru umfram almenna launaþróun þegar kjararáð hækkaði þau. Það hefur ekki verið vilji hjá þeim sem leggja fram þetta frumvarp til að gera það, svo við séum bara heiðarleg með hvað raunverulega er í spilunum. Jafnframt er ég búinn að reikna að það er upp að tveimur milljónum sem við þingmenn fengum í vasann umfram almenna launaþróun — þangað til núna þegar laun okkar hafa ekki hækkað frá kjararáðshækkuninni. Þannig að launaþróun landsmanna hefur verið að ná okkur. Þetta er svona upp að tveimur milljónum. Ef menn ætla að tala af heiðarleika og heilindum í samræmi við peningana væri ágætt að heyra hvað þeir þingmenn sem leggja fram þessa tillögu hafa gert við þessar tvær milljónir sem hafa farið í þeirra vasa. Ég notaði 1,5 millj. kr. beint úr mínum vasa til að borga fyrir að kæra kjararáð fyrir þessa hækkun sem átti sér stað á sínum tíma.

Nákvæmlega þetta mál sem hér er til umræðu er svona kjararáðsklúður, að það sé tekin geðþóttaákvörðun, myndi ég segja. Þess vegna kærðum við þetta. Það er í trássi við lög að hækka laun æðstu ráðamanna langt umfram almenna launaþróun og búa þar af leiðandi til einhvers konar tvíþætt kerfi, annars vegar ráðamenn og hins vegar almenning, sem skapaði gríðarlega óvild. Það eina góða sem kom út úr því var í rauninni að óvildin skilaði sér raunverulega í því að öflug verkalýðsforysta fæddist í landinu, náði að stíga inn, náði að fá stjórnvöld að borðinu, og það gerði hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir vissulega, aftur og aftur, fékk þau að borðinu og tókst að landa lífskjarasamningunum, sem við bjuggumst ekki við.

Það hefði náttúrlega verið best fyrir mig pólitískt að geta staðið hérna uppi, hafandi ekki snert alla kjararáðspeningana, og sagt: Heyrðu, hingað og ekki lengra, þið eruð ekki að fara að setja lög á verkföll. Það hefði verið pólitískt mjög gott fyrir mig af því að ég snerti ekki þessa kjararáðspeninga. En það að koma fram á síðustu mínútu og leggja til svona tillögu eftir að hafa tekið alla peningana í sinn vasa finnst mér ekki sérstaklega málefnalegt. Það er verið að landa þessu kjararáðsmáli eins og verkalýðsforystan vildi, fyrir utan að við áttum ekki að taka þessa peninga í okkar vasa.

Núna eru þingmenn að ná almennri launaþróun þannig að það eina sem situr eftir, eftir að þessi breyting hefur verið gerð og búið er að festa í lög að við förum ekki umfram almenna launaþróun, að við fylgjum almennri launaþróun — eftir á. Fyrst hækkar almenningur, svo hækka þingmenn, eins og átti alltaf að vera, eins og kjararáð átti að taka ákvarðanirnar um. Þannig að þetta er gott mál. Það er verið að landa þessu á góðum forsendum.

Það eina sem stendur út af í þessu máli er ef þingmenn ákveða í fjárlögum að hækka sig umfram það sem lögin segja. Það gætu þeir gert. Það er það eina sem ég myndi í rauninni segja að væri varhugavert í þessu máli; rétt eins og eftir hrunið var sagt að enda þótt það væri í lögum um öryrkja og eldri borgara að þeir ættu að hækka samkvæmt almennri launaþróun skyldi ákveðið í fjárlagafrumvarpinu, sem eru líka lög, að þeir skyldu ekki hækka. Þetta væru harðir tímar o.s.frv. Það er hægt að gera þetta. En ég myndi segja þetta væri það eina sem stæði út af í þessu máli, ef við ætlum að vera málefnaleg, það eina sem veldur hættu á að við förum aftur eitthvað umfram almenna launaþróun.

Ef við tökum þetta saman er loksins verið að landa kjararáðsmálinu og ég vil bara í lokin þakka kjararáði fyrir þetta allt saman af því að í rauninni mætti segja að Vor í verkó og öflug verkalýðshreyfing og lífskjarasamningarnir séu skilgetið afkvæmi ákvörðunar kjararáðs.