149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Finnst hv. þingmanni ekki ástæða til að setjast niður og að nefndin sem fjallar um málin velti aðeins fyrir sér stöðunni eftir að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu kom fram í öðru máli þar sem niðurstaðan er sú að Árni Kolbeinsson hafi verið vanhæfur vegna tengsla við Kolbein, son sinn, í því máli sem þar er fjallað um?

Þetta vekur upp spurningar sem mér finnst að við þurfum a.m.k. að velta fyrir okkur í þessari stöðu, að nefndin kalli til sín ráðgjafa og fari yfir stöðuna. Ég er ekki löglærð. Það er hv. þm. Brynjar Níelsson og kann auðvitað meira í þessu máli en ég. Hins vegar þarf ég að taka afstöðu líkt og hv. þingmaður og það þarf að undirbyggja þá afstöðu. Mér finnst fullkomlega óábyrgt af hv. atvinnuveganefnd að leggjast ekki aðeins yfir málið þó að það sé ekki nema í 30 mínútur með sérfræðingum. Það er óverjandi að steinþegja um málið, eins og það séu engar spurningar sem þurfi að svara hvað þetta varðar.

Undir eru milljarðar úr ríkissjóði. Það þarf að verja hag almennings með öllum ráðum. Hugsanlega verður þessi hæstaréttardómur ógildur vegna hæfis eins dómarans og þá stendur væntanlega niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur. Hæstiréttur sneri sýknudómi þar við.