149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, þ.e. stjórn veiða á makríl. Við stöndum hér með frumvarp þar sem lagt er til að tekin verði upp aflamarksstjórn við veiðar á makríl en til þessa hefur stjórn veiða á stofninum lotið reglugerðum sjávarútvegsráðherra og leyfum frá Fiskistofu til eins árs í senn. Í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Það er tímabært að taka upp slíkt skipulag …“

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að hér sé á ferðinni sóun á sögulegu tækifæri. Lengi hafa ríkt deilur í sjávarútvegsmálum og óánægja landsmanna orðið sífellt meira áberandi. Nú er uppi kjörið tækifæri til að láta reyna á nýjar leiðir í þessum málum. Engu að síður ákveða stjórnvöld að stinga höfðinu í sandinn þegar kemur að því að ræða breytingar og ekkert gert til að koma til móts við óskir og kröfur um breytingar hér á og ekkert gert til að tryggja að úthlutun aflaheimilda fari fram með réttlátari og stöðugri hætti en tíðkast hefur.

Það er ekki þar með sagt að þeir sem vilja breytingar geri kröfur um að kollvarpa ríkjandi fiskveiðistjórn eða leggja niður kvótakerfið með öllu. Gagnrýnin snýr fyrst og fremst að því að stjórnvöld ákveði hér með að láta ekki einu sinni reyna á tímabundna samninga. Þau taka alfarið afstöðu gegn tímabundinni aflahlutdeild í þessum efnum og því skýtur skökku við að meðal talsmanna frumvarpsins sé að finna þá stjórnmálamenn sem hafa áður talað fyrir breytingum og til stuðnings þeim vísað í auðlindina sem eign þjóðarinnar á sama tíma og bent hefur verið á að með sterkum rökum að þetta frumvarp muni koma sérstaklega illa við smábátaveiðar og smærri útgerðir.

Hér virðist því hafa orðið nokkur kúvending eins og ýmsir hafa bent á í umræðu um þetta mál ef marka má fyrirliggjandi tillögur því að tímabundnar aflaheimildir eru einmitt forsendur þess að um raunverulega þjóðareign sé að ræða. Þær tillögur sem við ræðum taka ekki tillit til þess. Það er erfitt að sjá hvernig sjónarmiðin sem hér eru lögð til grundvallar samræmist þeirri hugmyndafræði sem Vinstri grænir hafa lengi kennt sig við í sjávarútvegsmálum. Hér blasir ekki við hugsjón réttlátra breytinga heldur er þvert á móti verið að festa gamalt kerfi í sessi.

Sérfræðingar hafa enn fremur varað við því að réttarstaða ótímabundinna aflaheimilda styrkist eftir því sem tíminn líður. Afgerandi afstaða stjórnvalda gegn tímabundinni aflahlutdeild er svo til eingöngu til þess fallin að skapa enn frekari óvissu með ákvæði um þjóðareign auðlindarinnar.

Þessu andmælum við í Viðreisn. Þess í stað höfum við lagt til að uppboð eigi sér stað á tímabundnum aflaheimildum eins og sjá má nánar í breytingartillögu okkar sem þingmaður Viðreisnar, áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lagði fram og mælti fyrir.

Fyrr á árinu lögðum við í Viðreisn líka fram frumvarp í þessum efnum ásamt þingmönnum Pírata og Samfylkingarinnar, en þar var lagt til að bjóða upp 5% aflaheimildanna og binda til 20 ára. Slíkt er að mati okkar fallið til þess að tryggja réttlátari útfærslu og undirstrika þjóðareignina með hæfilegri tímalengd aflahlutdeildarinnar ásamt því að tryggja frekari fyrirsjáanleika og stöðugleika í sjávarútvegi.

Þá var jafnframt lagt til að veiðigjaldið sem fengist fyrir tímabundna aflahlutdeild í makríl á frjálsum markaði og samkvæmt úthlutun rynni í fyrirhugaðan uppbyggingarsjóð landsbyggðarinnar. Allt þetta hefði verið hægt að gera núna, allt þetta hefði verið einfalt að gera núna og allt þetta hefði verið rétt að gera núna. Þess í stað liggur fyrir frumvarp ríkisstjórnarinnar undir formerkjum varðstöðu og stöðnunar.

Það er hægt að vera vonsvikinn þó að maður sé hættur að vera undrandi.