149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, um stjórn veiða á makríl. Ég vildi bara í þessari umræðu aðeins koma hingað upp og fara frekar yfir þá erfiðleika sem nefndin átti í í þessu máli. Það var erfitt að koma til móts við þau sjónarmið sem köstuðust á í þessu erfiða máli, annars vegar þeirra sem höfðu fyrstu og lengstu reynsluna og hins vegar þeirra sem styttra voru á veg komnir, eins og smábátarnir. Megininntakið í vinnu nefndarinnar var að reyna að ná einhverri sátt um þetta mál þar sem allar leiðir voru skoðaðar. Ég verð að viðurkenna að ég trúði því kannski í barnslegri trú að þeir sem við vorum að vinna fyrir létu niðurstöðu nefndarinnar duga og sættu sig við hana þó að við hefðum vissulega gert okkur grein fyrir því að við yrðum að teygja okkur nokkuð langt í allar áttir til að ná þeirri sátt að allir væru ánægðir, sem lá fyrir að yrði ekki. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að nú þegar hafa útgerðarflokkar hótað málsókn í þessu máli. Það veldur mér miklum áhyggjum og miklum heilabrotum um það hvernig ég geti afgreitt þetta mál frá þinginu.

Það er búið að ganga mjög langt, búið að taka út 4.000 tonn í potta fyrir smábáta til að veiða. Það tryggir að þeir sem hafa veitt makríl á undanförnum árum geta haldið því áfram. Það varð vissulega niðurskurður hjá þeim sem höfðu aflamark í þeim hópi. Það var líka reynt að tryggja þeirra hagsmuni en það var auðvitað ekki hægt að gera með því að taka úr þessum potti og færa yfir til þeirra persónulega þrátt fyrir beiðni um það og að maður sitji undir ásökunum um að hafa ekki neinn skilning á málunum með því að vilja ekki færa nánast endalausar aflaheimildir yfir á bátana. Það var auðvitað ekki hægt. Hér er verið að flytja milljarðaverðmæti yfir á útgerðirnar og ég spyr: Fá menn aldrei nóg? Við höfum verið í erfiðleikum með þetta mál og það þarf kannski að endurskoða það allt saman.

Ég velti fyrir mér hvort það hefði verið rétt að fresta afgreiðslu þessa máls um tíma og sjá hvort hægt væri að ná sátt í því þannig að ríkið væri þá ekki að samþykkja lög sem kallaði yfir það lögsókn af hendi þeirra sem fá afhentar aflaheimildir fyrir milljarðatugi.

Það er líka annað mál sem tengist þessu, stimpilgjaldið sem er sett á notuð skip sem hefur hamlað því að fiskiskipum er flaggað út og þau geta farið að veiða í landhelgi annarra landa. Það er sorglegt ef okkur tekst ekki fyrir þinglok að koma því máli inn í þingið og klára það. Í haust var flutt mál hérna sem hefur ekki náð að koma fram en getur skipt miklu máli, ekki aðeins fyrir útgerðirnar heldur sjómennina sem misstu af loðnuvertíðinni og hafa glatað stórum hluta árstekna sinna. Það skiptir máli að koma þessum mönnum og skipum á sjó á erlend mið, vinna okkur inn aflareynslu og skapa tekjur sem verða margfalt á við það sem þetta stimpilgjald er þó að það sé auðvitað mjög íþyngjandi fyrir þær útgerðir sem þarna hafa verið að veiða.

Ég mátti til með að segja hug minn í þessu máli. Mér finnst vont að þrátt fyrir góðan vilja nefndarinnar, okkar allra, til að fara þá leið sem kæmi öllum kannski jafn illa, fór það reyndar einum hóp verst sem ber nú harm sinn í hljóði og segir neitt og það eru þeir sem höfðu leigt frá sér heimildirnar og þeir sem leigðu fá aflahlutdeildina. Ég verð að viðurkenna að á lokametrum umræðu um þetta mál er ég bara mjög óánægður með þá meðferð sem nefndin fær út af því.