149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:16]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996 (stjórn veiða á makríl). Hér eru m.a. greidd atkvæði um breytingartillögu mína sem er í samræmi við stefnu okkar Samfylkingarfólks um að einn þriðji makrílkvótans verði boðinn út samkvæmt ferli sem ráðherra myndi ákveða með reglugerð. Þar leggjum við áherslu á að við útboðið líti ráðherra til reynslu Færeyinga af útboði á makrílkvóta en fyrirkomulag þeirra hefur gefið góða raun. Þá leggjum við jafnframt til að helmingur þeirra tekna sem verði til við uppboðið renni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annist skiptingu teknanna. Þetta er í huga okkar Samfylkingarfólks sérstaklega mikilvægt enda ljóst að lagabreytingar ásamt tækniframförum síðustu ára hafa leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum í sjávarbyggðum víða um land.

Herra forseti. Ég hvet hv. þingheim til að samþykkja breytingartillögur okkar í Samfylkingunni.