149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:19]
Horfa

Jarþrúður Ásmundsdóttir (V):

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri. Í frumvarpi um skiptingu veiðiheimilda á makríl gefst okkur nú kostur á að leiðrétta það óréttlæti sem ríkt hefur í skiptingu veiðiheimilda, óréttlæti sem í dag er innbyggt í fiskveiðistjórnarkerfið. Við eigum þess kost að taka í þessu máli lítið en mikilvægt skref í átt að auknu réttlæti, verðmætasköpun og sjálfbærni. Þótt skrefið sé lítið felur það í sér stóra yfirlýsingu um vilja stjórnvalda og þingsins til langþráðra sátta um nýtingu auðlindarinnar.

Breytingartillagan sem þingið greiðir hér atkvæði um tryggir sanngjarna úthlutun veiðiheimilda, veldur ekki ólíkum aðilum greinarinnar fjárhagslegu tjóni og staðfestir rétt þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Tímabinding aflaheimilda og uppboð á hluta þeirra þar sem markaðurinn ræður för en ekki geðþóttaákvörðun stjórnmálamanna er óumdeilanlega til þess fallin (Forseti hringir.) að vera ábatasamari fyrir þjóðarbúið og fyrirtæki greinarinnar. Ég renni hér í þeim efnum augum sérstaklega í átt til þeirra flokka sem kenna sig við markaðslausnir. Það væri afar misráðið af þinginu að grípa ekki tækifærið núna og greiða atkvæði með tillögunni því að við vitum ekki hvenær það gefst næst.

Þingmaðurinn segi já.