149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er þess eðlis að það þarf að ríkja mikil sátt um það og að svo stöddu ríkir sú sátt ekki. Það er alltaf ákveðin hætta, þegar verið er að sameina svona mikilvægar stofnanir, að það sé gert á ófullkominn hátt. Við höfum séð það gerast áður og að svo stöddu get hvorki ég né aðrir í Pírötum samþykkt þetta mál, hreinlega vegna þess að hættan er svo mikil, svo sem orðsporsáhætta og hættan af því að ákveðnir hagsmunaárekstrar verði til staðar innan þessarar nýju stofnunar sem hefur af ýmsum verið lýst sem ríki innan ríkisins, þannig að við munum ekki styðja málið.

Engu að síður komu nokkrar góðar breytingartillögur frá minni hlutanum og þær munu gera málið eitthvað skárra. Svo býst ég við því að umræðu um framtíð og skipulag Seðlabankans sé ekki lokið. Það kemur alltaf aftur til umræðu.