149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[12:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum sem yrði einnig skipaður fimm sérfræðingum úr hinum ýmsu ráðuneytum til að vinna aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Starfshópurinn skal skila skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember eftir að umhverfis- og samgöngunefnd lagði það til enda er tillagan orðin nokkurra mánaða gömul. Loks er gert ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Herra forseti. Þessi tillaga er lögð fram af öllum þingmönnum Suðurkjördæmis. 1. flutningsmaður er hv. þm. Oddný Harðardóttir og vil ég sérstaklega þakka henni fyrir að beita sér fyrir þessari tillögu og einnig fyrir að beita sér fyrir því að þetta hafi verið og sé forgangsmál á þinginu af hálfu hennar flokks. Ég lýsi ánægju minni með það og fagna því að svo skyldi vera og vonast auðvitað til þess, vegna þess að þessi tillaga er borin fram af öllum þingmönnum kjördæmisins og úr öllum flokkum, að tillagan njóti víðtæks stuðnings og fái framgang og samþykki á næstu klukkustundum. Það er hörmungarsaga hvernig ríkisvaldið hefur sinnt Suðurnesjum á umliðnum árum í gegnum gífurlegar og ítrekaðar niðursveiflur á svæðinu. Síðan þegar rofar til hefur íbúum fjölgað, eins og kemur fram í tillögunni og í nefndarálitinu, með þeim hætti sem ekki er nokkur dæmi að finna annars staðar. Ríkið hefur dregið lappirnar áberandi í allri þjónustu og uppbyggingu á svæðinu. Þetta verður að lagfæra. Um það hefur verið talað síðustu ár og hér er komin tillaga sem vonandi verður til þess að eitthvað fari að gerast í þessum málum vegna þess að íbúarnir eru orðnir langþreyttir á þessari bið.

Saga atvinnuþróunar á Suðurnesjum undanfarin ár er vel þekkt og hefur verið reifuð hér í umræðunni, bæði í upphafi og í dag, og óþarfi að ég endurtaki það allt en í stuttu máli hefur ástandið einkennst af því að miklar sveiflur hafa verið í atvinnulífi svæðisins, djúpar lægðir og síðan miklar hæðir. Á undanförnum árum hefur uppsveifla verið á svæðinu eftir mikið samdráttarskeið eftir brottför varnarliðsins 2006 og tveimur árum síðar varð efnahagshrunið, 2008. Varnarliðið var á svæðinu í meira en hálfa öld og atvinna svæðisins dró svolítið dám af því hvernig atvinnu var háttað í kringum veru liðsins. Uppsveiflan undanfarin ár hefur leitt til þess að íbúaþróun á svæðinu hefur verið með þeim hætti að ekki eru til dæmi um slíka íbúafjölgun á nokkru svæði á jafn skömmum tíma. Þar kemur margt til, bæði fordæmalaus uppgangur í ferðaþjónustu og komu ferðamanna til landsins og ekki síður mikil vöntun og verðhækkanir á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þannig að margir hafa kosið að setjast að í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hefur verið kostur á ódýrara húsnæði, a.m.k. til skamms tíma. Merki þess er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, bæði á Vesturlandi, austan við höfuðborgarsvæðið og sunnan við, þ.e. á Suðurnesjum, ekki síst þar. Þannig hefur íbúafjölgun verið algjörlega dæmalaus á Suðurnesjum mörg undanfarin ár. Í nefndarálitinu kemur fram að erlendum ríkisborgurum á svæðinu hafi fjölgað um 3.780 á árabilinu 2010–2018, á átta árum. Svo mikill fjöldi væri góð sneið fyrir marga landshluta ef slík fjölgun ætti sér stað þar fyrir utan það að nú búa á svæðinu yfir 26.000 manns sem er stórt og mikið atvinnusvæði. Á sama tíma hefur þjónusta ríkisins á svæðinu dregist verulega aftur úr íbúaþróuninni.

Hvaða þættir heyra undir ríkið? Það er m.a. heilbrigðisþjónusta. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Sem dæmi er þess getið að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.“

Aukningin er 1% en íbúafjölgunin 15%. Þarna myndast gap, herra forseti, sem verður að brúa og það er brýnt.

Einnig má nefna hér þann hluta skólakerfisins sem heyrir undir og er á forræði ríkisins, eins og t.d. fjölbrautaskólann sem hefur kvartað yfir fjárvöntun. Ég vil einnig nefna löggæsluna þar sem aukning íbúa og aukning ferðamanna að sjálfsögðu hefur kallað á verulega aukningu verkefna lögreglunnar.

Einnig vil ég nefna samgöngumálin eins og Reykjanesbrautina sem er ekki enn, árið 2019, búið að tvöfalda milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar. Þar eru enn langir kaflar með einni akrein í hvora átt. Allt þetta kallar á að ríkið taki til hendinni, lagi þessi verkefni og þessa þjónustu. Í dag er einnig óvíst um áhrif falls WOW air á svæðið til lengri tíma, en ljóst er að áhrifin eru fjarri því að vera að fullu fram komin. Hvort þetta verður mikill samdráttur í ferðaþjónustu á svæðinu er óvíst enn í dag en menn hafa talað um kannski 15–20% samdrátt í komu ferðamanna og það mun hafa áhrif. Fólk missir atvinnu og er þegar búið að því og það er óvíst hvað kemur í staðinn og hvort við réttum okkur af á skömmum tíma eða löngum.

Ég bendi á að Keflavíkurflugvöllur er einn stærsti vinnustaður á Suðurnesjum og þessi óvissa kemur ofan á vöntun á fjárframlögum frá ríkinu til allra þessara stofnana sem ég nefndi og þátta ríkisvaldsins. Á sama tíma og um leið og mikil íbúafjölgun á sér stað á svæðinu og þjónusta ríkisins er langt á eftir þeirri þróun var sveitarfélögunum á svæðinu gert með lögum fyrir 13 árum að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum á eigum ríkisins á fyrrverandi varnarsvæði á Ásbrú. Þar ber einnig að hafa í huga að sú ráðstöfun kom á sínum tíma ekki upphaflega til af góðu vegna þess að allar þessar fasteignir komu í fang ríkisins á örskotsstund. Hvað hefur gerst síðan? Síðan þá hefur ríkið selt þessar eignir og fengið milljarða fyrir. Á sama tíma dregur ríkið lappirnar í uppbyggingu þjónustu sinnar á svæðinu.

Þetta virkar sem öfugmæli, herra forseti. Ríkið þarf vissulega að gyrða sig í brók varðandi þjónustu við íbúa Suðurnesja og ég ber þá von í brjósti að þessi tillaga, verði hún samþykkt, og vinna starfshópsins sem skipaður verður, sem gert er ráð fyrir að skili niðurstöðum 1. desember nk., dugi til að vekja ríkið af þeim dvala sem það hefur verið í gagnvart þessu svæði og að árangurinn verði sá að gefið verði í hvað varðar uppbyggingu á vegum ríkisins, á heilsugæslu á Suðurnesjum, í bættum samgöngum, sterkum menntastofnunum og eflingu löggæslu á svæðinu íbúum til heilla. Í raun og veru, herra forseti, er einungis farið fram á að ríkið leggi fram sanngjarnan og eðlilegan skerf til þjónustu og uppbyggingar á þeim sviðum sem undir það heyra á svæðinu.

Að svo sögðu legg ég til og ber þá von í brjósti að þetta mál nái hér fram að ganga fyrir þinglok.