149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[12:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek undir þá jákvæðu tóna sem hafa verið slegnir varðandi þessa þingsályktunartillögu sem er svipaðs eðlis og var flutt á síðasta þingi af hálfu Samfylkingarinnar. Núna eru allir þingmenn Suðurkjördæmis á tillögunni. Þetta er svolítið gott dæmi um það að allir flokkar geta unnið saman en þetta er líka dæmi um nálgun sem ég vil ekki endilega festast í, að það séu bara þingmenn viðkomandi kjördæma sem taka málið að sér. Mig langar til að við horfum á landið okkar allra, sama hvar við búum, a.m.k. gerum við það í Viðreisn, sem kjósendur okkar og okkar fólk sem við þurfum að taka vel utan um, sama hvar það er búsett. Ég er með mikil tengsl við Suðurnesin og Suðurkjördæmið allt og það skiptir mig máli að sjá að ákveðnum hlutum sé sinnt. Um leið vil ég undirstrika ósk um og skila þökkum til flutningsmanna frumvarpsins fyrir að viðhalda þessu máli því að það þarf að gera það. Það þarf að bregðast við hratt og strax að okkar mati því að ríkisstjórnin hefur að vissu leyti ekki staðið sig nægilega vel í stykkinu þegar kemur að því að leysa þann vanda sem fylgir þeirri óvissu sem er í efnahagslífi landsmanna, ekki síst eftir fall WOW. Við sjáum það núna á helstu greiningaraðilum, eins og t.d. hjá Arion banka, að þeir spá því að í haust verði álagið meira, það verði hugsanlega aukið atvinnuleysi og fleiri þættir sem muni koma fram í kjölfarið á samdrætti í ferðaþjónustu. Þá eru það auðvitað Suðurnesin sem við þurfum að gæta sérstaklega að. Eins og hefur komið fram í ræðum hér áður hefur orðið þar íbúasprenging. Fjölgunin hefur orðið hlutfallslega hröðust og mest þar en að sama skapi hefur ekki verið tekið tillit til þess aukna álags á heilbrigðisstofnanir, löggæsluna og fleiri stofnanir, eins og skólakerfið, menntaskólann, Ásbrú líka, sem er á svæðinu.

Ég fagna því sérstaklega að þessi tillaga sé komin þetta langt, að hún hljóti vonandi líka afgreiðslu á þinginu síðar í dag. Ég vona þó að það verði ekki þannig að ríkisstjórnin haldi þegar búið verður að samþykkja þessa tillögu að þá sé það bara fínt og svo malli þetta áfram. Þetta má ekki malla. Það verður að fara strax í ákveðnar aðgerðir og við verðum að vera tilbúin gagnvart því sem haustið mun hugsanlega bjóða upp, ekki síst á Suðurnesjunum. Það eru þessir óvissutímar sem við þurfum að átta okkur á og hefjast strax handa við að fara í ákveðnar aðgerðir. Hvað getur ríkisvaldið gert? Það getur stutt við þær stofnanir sem eru á Suðurnesjunum. Við í Viðreisn höfum líka lagt það til til að mæta niðursveiflunni og höfum sérstaklega tilgreint að við eigum að fara í öflugar samgönguframkvæmdir. Við höfum tiltekið að við eigum að klára fyrir 2022, fara strax í að klára Reykjanesbrautina og ýmsar aðrar framkvæmdir, m.a. Ölfusárbrúna og hættulega vegarkafla frá Vík að Jökulsárlóni. Þetta er það sem við eigum að gera á þessu svæði, sérstaklega á Suðurnesjunum, til að koma í veg fyrir að óvissa, óþægindi og erfiðleikar verði meiri á því svæði en þarf að vera. Ég hvet ekki síst stjórnarþingmenn til að halda ríkisstjórninni við efnið. Stundum veitir hreint ekki af því.

Ég tek því eindregið undir þessa tillögu og mun greiða henni atkvæði mitt. Ég þakka nefndinni fyrir að hafa unnið þetta áfram en ég mæli líka með því að nefndin fylgi þessu eftir strax í haust og spyrji: Hvað eruð þið búin að gera síðan við samþykktum tillöguna? Hvað hefur verið sett í ferlið þannig að við getum til að mynda gefið skýr skilaboð inn í Ásbrú, gefið skýr skilaboð inn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja o.s.frv. þannig að Suðurnesjamenn fái skýr svör um þau viðfangsefni sem þeir standa frammi fyrir. Þetta er gott mál, það er gott að það sé komið þetta langt og ég styð það. Þetta mál má þó ekki verða til þess að allir haldi að allt sé komið í höfn. Þetta er ekki þannig, það þarf að fylgja þessu eftir og það er okkar hlutverk á þingi, ekki síst ríkisstjórnarflokkanna, að sjá til þess að raunverulegar úrbætur komi í kjölfarið fyrir Suðurnesjamenn.