149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[13:21]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að leiða okkur þingmenn Suðurkjördæmis í því ágæta máli sem hér er komið fram. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara að því sem nefndin segir í áliti sínu, að leggja áherslu á að fara heildstætt yfir stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er ekki langt síðan ég flutti stutta ræðu í störfum þingsins um stöðuna á Suðurnesjum og ég ætla ekki að endurtaka það allt saman, það er alger óþarfi að gera það, en mjög mikilvægt er að varpa ljósi á þau vandamál er snúa að heilbrigðisstofnuninni, skólunum og samgöngum, en við megum ekki gleyma því hversu margt gott er gert á Suðurnesjum og staðan er að mörgu leyti góð. Á undanförnum árum hafa yfir 20 milljarðar á ári verið notaðir í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem hefur haldið uppi gríðarlega háu atvinnustigi á svæðinu og störfum hefur fjölgað alveg gríðarlega þrátt fyrir það áfall sem gerðist við fráfall WOW síðasta vetur.

Ég vek líka athygli á því að gríðarlega öflugur sjávarútvegur er stundaðar í Grindavík og í Garði og Sandgerði, í nýjum Suðurnesjabæ. Það væri ágætt verkefni þessarar nefndar að benda á að bæta hafnaraðstöðu í Suðurnesjabæ sem þarf að gera til að taka á móti þeim skipum sem eru gerð út frá sameiginlegu sveitarfélagi.

Ég held að Suðurnesjamenn geti borið höfuðið hátt. Í rauninni drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum, það eru tækifæri við hvert einasta fótmál og grípa þarf þau tækifæri. Það er gríðarlega öflugt samfélag á Suðurnesjum með Reykjanesbæ í broddi fylkingar þar sem skuldastaða sveitarfélagsins er komin í 140% og er auðvitað gjörbreytt staða fyrir íbúana. Það skiptir allt svæðið miklu máli að sú staða sé orðin uppi í því sveitarfélagi. Hin sveitarfélögin, ég held að ég megi segja öll, standa verulega vel og þrátt fyrir að við viljum fleiri ferðamenn erum við nú með einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins, Bláa lónið, en þangað komu á síðasta ári um 1,3 milljónir gesta, jafnvel rúmlega það, voru það a.m.k. árið 2017, og það segir allt um þann segul sem Bláa lónið er og dregur auðvitað fullt af fólki inn á svæðið. Við sjáum mörg tækifæri í ferðaþjónustu, hjólaferðir og annað slíkt sem nýtt er í Grindavík skiptir miklu máli fyrir svæðið en við viljum sjá meira. Bátar eru gerðir út á sjóstöng og hvalaskoðun og þetta skiptir líka miklu máli. Mikil þjónusta er á svæðinu og auðvitað vinna svo íbúar á því svæði eins og annars staðar í Reykjavík.

Ég segi því að tillagan sem hér er komin fram er mjög góð og vonandi verður það plagg sem kemur frá henni í desember gott plagg til að halda áfram að vinna að góðum málum á Suðurnesjum vegna þess að Suðurnesin eru gott svæði, það er vaxtarsvæði. Þar er mikið að gera og þrátt fyrir þetta högg sem er núna megum við ekki láta það blinda okkur. Svæðið býður upp á það mikið. Að þessu sinni ætla ég að láta þetta duga þar sem margir hafa talað og það styttist í þinglok.