149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að stórútgerðin sjálf er að verðleggja verðmæti makrílsins hátt þannig að það eru mikil verðmæti fólgin í sjálfum makrílveiðunum og aflanum sem fæst í gegnum veiðarnar. Það segir okkur líka að það mál sem hér um ræðir er ekki fullbúið, það þarf að vinna það betur. Við í Viðreisn höfum lagt fram skýra tillögu um að tímabinda eigi aflaúthlutanir og setja aflahlutdeildir á markað.

Við áttum að nýta þetta tækifæri núna og veita þjóðinni hlutdeild í makrílnum. Það hefur ekki verið gert. Það hefur ekkert verið gert til að reyna að stuðla að sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein og þess vegna segjum við í Viðreisn — vegna þess m.a. að málið er ófullbúið, það er ekki verið að horfa til framtíðar, það er ekki verið að huga að hagsmunum þjóðarinnar til skemmri og lengri tíma — nei við þessu máli.