149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[16:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Loksins hefur Alþingi samþykkt að líta sérstaklega til Suðurnesja, meta stöðu þar sem er um margt sérstök. Of miklar sveiflur hafa verið í atvinnulífi á undanförnum árum. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa margoft komið fyrir fjárlaganefnd til að benda á að þau telji halla á svæðið þegar ríkisfjármálum er útdeilt.

Samfylkingin gerði þessa tillögu að forgangsmáli þó að meðflutningsmenn séu allir aðrir þingmenn Suðurkjördæmis. Það er eingöngu vegna þess að Samfylkingin valdi málið sem forgangsmál að það komst til nefndar og út úr nefnd til samþykktar í dag. Það er reyndar við hæfi að þetta sé gert fyrir tilstilli jafnaðarmanna því að málið snýst um að jafna stöðu Suðurnesjamanna, hvort sem er á milli ólíkra hópa eða við aðra landshluta. Ég bind miklar vonir við að verkefnið sem Alþingi felur ráðuneytum að ráðast í muni skila Suðurnesjamönnum góðum ávinningi.