149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir mikilli ánægju með góðar glósur hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Sérstaklega þykir mér athyglivert ef það kemur fram í þeim að ég hafi verið með honum á fundum atvinnuveganefndar. (JÞÓ: Ég sagði það ekki.) Ég skildi það þannig. Ég er ekki í þeirri nefnd. Við sem erum flutningsmenn að þessari breytingartillögu erum þingmenn Norðvesturkjördæmis sem er annað af tveimur kjördæmum landsins þar sem er meginþungi fiskeldisins sem nú er verið að ræða þannig að það er ekkert tortryggilegt við það.

Það er bara heiðarlegt að segja frá því að það hefur verið meira en lítið mál að draga út upplýsingar um það hvaða áhrif hver sá skurðpunktur sem um hefur verið rætt í málinu hefði á hvert svæði fyrir sig. Til að mynda fyrir vestan er munur á því hvort inni eru leyfi á sunnanverðum Vestfjörðum eða í Ísafjarðardjúpi þar sem enn er allt lokað. Svona hlutir skipta máli og nefndin var treg til, svo ég orði það pent, að sundurgreina þetta. Ég hef sagt það í ræðu áður að ég vildi að nefndarmenn nálguðust málið með galopnum augum gagnvart því hvaða áhrif þetta hefði á hvert svæði fyrir sig.

Hvað mælir því í móti? Hér er talað um gegnsæi daginn út og daginn inn og ég veit að hv. þm. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er mikill áhugamaður um gegnsæi. Mér þótti ekki mikið gegnsæi í því að það var beinlínis lagst gegn því (Forseti hringir.) að sundurgreina áhrif hvers skurðpunkts fyrir sig.