149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að meginreglan sé sú að sá umhverfiskostnaður, það mögulega tjón sem rekstur veldur, skuli greiðast af þeim rekstri sem honum veldur. Ég treysti mér ekki til að svara þessari spurningu skýrar en þetta. Ég vona að ég sé að svara spurningunni sem átti að koma hér í gegn.

Varðandi mótvægisaðgerðirnar sem hv. þingmaður kom inn á má nefna ýmislegt. Við sjáum t.d. að í Langadalsá er verið að klára — ég man ekki hugtakið sem er notað yfir þetta en eiginlega fiskigildru eða síu sem tekur mynd af hverjum einasta fiski sem fer upp í ána. Menn nota ljósastýringar, möskvastærð og annað slíkt, þetta eru allt saman hlutir sem er hægt að taka ákvörðun um með mjög stuttum fyrirvara hjá eldisfyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Ég held að undirbúningur og (Forseti hringir.) aðdragandi mótvægisaðgerða sé í sjálfu sér á ágætisstað.