149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um póstþjónustu, með öðrum orðum ný lög sem leysa af hólmi lög frá árinu 2002. Meginefni frumvarpsins er afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði og opnun markaðar, auk þess sem alþjónusta í pósti er tryggð og kveðið á um hvernig fara skuli með kostnað við alþjónustu ef hún er ekki leyst af hendi á markaðslegum forsendum.

Með frumvarpinu eru innleidd í íslenskan rétt efnisákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008 um frekari breytingar á pósttilskipun 97/67/EB, svo farið sé rétt með, og þessi pósttilskipun er sú þriðja í röðinni, þ.e. svokallaður þriðji póstpakki sem við ræðum hér.

Þetta eru löngu tímabærar breytingar og aðdragandinn hefur verið langur. Það er gott að nú sér fyrir endann á þessu ferli. Ég fagna því að hér sé stigið það skref að afnema einkarétt ríkisins og opna fyrir samkeppni á póstmarkaði. Ísland er eina landið innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur ekki afnumið framangreindan einkarétt og þetta skref því löngu tímabært, svo ég árétti það aftur. Það breytir því ekki að ákveðin atriði hafa komið upp við vinnslu málsins sem gera það að verkum að ég vildi óska þess að meiri hluti nefndarinnar hefði gefið sér tíma til að afgreiða það á annan og betri hátt. Ég kem kannski að því síðar.

Það kom fram á fundum umhverfis- og samgöngunefndar með Samkeppniseftirlitinu að það væri algengt að eftirlitið fengi kvartanir á mörkuðum sem spretta upp úr ríkiseinokun. Enn fremur kom fram að umbætur sem miðuðu að því að opna fyrir samkeppni hefðu tekist betur í fjarskiptamálum en póstþjónustu. Ástæðan fyrir því að þetta var rætt saman er að einhverjir hér inni muna þá tíð þegar þetta var samfléttað.

Það er áhugavert að skoða þróunina á fjarskiptamarkaði í þessu samhengi, skoða frumkvöðlastarfsemi þeirra sem komu inn á markaðinn þegar hann opnaðist, það hvernig umhverfið breyttist með innleiðingu tilskipunar Evrópska efnahagssvæðisins, hvernig samkeppnislög og samkeppniseftirlit spiluðu þar hlutverk, sem og Póst- og fjarskiptastofnun. Þegar því er velt upp hvað af þessu er ekki í lagi hér og hefur gert það að verkum að póstþjónustuumhverfið hefur verið hálfhaltrandi í samanburði við fjarskiptin er svarið það að við höfum ekki verið með umhverfi hins Evrópska efnahagssvæðis til þessa og nú erum við að laga það með þessari löggjöf. Það er bæði rétt og gott að halda því til haga á þeim tímum sem við lifum hér og í því andrúmslofti sem á stundum ríkir í þinginu gagnvart því sem kemur sem afleiðing af samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Umsagnir um þetta mál voru að meginleyti til jákvæðar. Hins vegar er ljóst að afnámi einkaréttarins fylgja ýmis úrlausnarefni. Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem framsögumaður, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, fór hér vel yfir áðan er komið ágætlega inn á velflest þessara mála. Ég er sammála því sem þar segir að miklu leyti en eitt af því sem margir umsagnaraðilar gagnrýndu verðskuldar meiri umfjöllun. Í stuttu máli er það sú staðreynd að við ræðum hér breytingu á heildarlögum um póstþjónustu, m.a. um afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði og opnun markaðarins, án þess að hafa farið ofan í eða fengið greiningu á rekstri og samkeppnisháttum Íslandspósts, þar með talið raunkostnaði við alþjónustuhlutann.

Þörf á slíku hefur verið margsinnis rædd, m.a. í þingsal, ekki síst síðustu mánuði. Fyrr í vetur var t.d. rætt á vettvangi þingsins um nauðsyn þess að fá úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknum þáttum í rekstri Íslandspósts vegna þess fjárhagsvanda sem fyrirtækið hefur átt við að stríða og vegna þeirra leiða sem farnar hafa verið við að mæta þeim vanda með tilheyrandi áhrifum á samkeppni á þeim sviðum sem Íslandspóstur starfar á til hliðar við alþjónustuna í póstsendingum. Hér er verið að vísa til þess að Íslandspóstur starfar annars vegar í skjóli einkaleyfis og hins vegar í rekstri sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Það er okkar að tryggja að samkeppnisreksturinn sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis.

Niðurstaða þessarar umræðu var sú að fjárlaganefnd Alþingis kallaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar og Ríkisendurskoðun skilaði síðan skýrslu í vikunni. Það eru vonbrigði og undrunarefni að þau vinnubrögð hafi verið viðhöfð af hálfu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og reyndar meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar líka að koma í veg fyrir að þingmenn gætu nýtt sér þessa úttekt eða skýrslu Ríkisendurskoðunar á tilteknum atriðum í rekstri Íslandspósts við afgreiðslu þessa máls. Það er alveg sama hvernig á það er horft, annars vegar er verið að skoða starfsemi fyrirtækis sem heitir Íslandspóstur og hins vegar frumvarp til laga um póstþjónustu. Þetta er samofið og verður ekki skilið í sundur, síst þegar litið er til þeirra áhrifa sem þau atriði sem ég tiltók hér hafa haft, þ.e. fjárhagsvandi Íslandspósts og viðbrögð við þeim vanda.

Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í dag þegar málið var tekið út úr nefnd lagði hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fram bókun sem felur í sér mótmæli við því að frumvarp til laga um póstþjónustu sé tekið út úr nefndinni áður en nefndir Alþingis eigi þess kost að fjalla um úttekt eða skýrslu Ríkisendurskoðunar á Íslandspósti. Ég tek heils hugar undir þá bókun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Eins og ég tiltók áðan fór sú sem talaði á undan mér, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, framsögumaður meiri hlutans, vel yfir fjölmörg þeirra mála sem snerta þetta frumvarp. Margt af því er mjög vel unnið og ég tek undir þau mál en jafnframt stend ég hér að áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar ásamt hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Áheyrnarfulltrúinn Björn Leví Gunnarsson er samþykkur því áliti.

Þessi minni hluti telur innleiðingu EES-tilskipunar um afnám einkaréttar á póstþjónustu með frumvarpi þessu löngu tímabæra. Hann telur þó óheppilegt að breytingarnar gangi í gegn í skugga alvarlegra athugasemda sem gerðar hafa verið við rekstur Íslandspósts ohf. og við óskilgreindan og fjármagnaðan kostnað fyrirtækisins við alþjónustu. Telur minni hlutinn ekki ákjósanlegt að frumvarpið sé tekið út úr umhverfis- og samgöngunefnd áður en nefndir Alþingis eigi þess kost að fjalla um úttekt Ríkisendurskoðunar á Íslandspósti þótt hann fagni aðgerðunum sem í frumvarpinu felast til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði. Ljóst er að til að hægt sé að tryggja sem sterkasta samkeppni og jafnvægi á markaði þurfi kostnaður Íslandspósts ohf. að vera gerður opinber fyrir alla landsmenn, ekki síst þann eða þá sem taki við rekstri fyrirtækisins. Leggur minni hluti nefndarinnar því til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið sem kveði á um að upplýsingar um kostnað Íslandspósts við framkvæmd alþjónustu verði teknar saman og gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. um gildistöku laganna 1. janúar 2020 skuli ráðherra þegar í stað að hefja þá vinnu.

Í áliti meiri hluta nefndarinnar er fjallað um val á þjónustuveitanda og markaðskönnun með vísan til 11. gr. frumvarpsins. Er þar gert ráð fyrir þremur mismunandi leiðum til að tryggja alþjónustu, þ.e. samningi um veitingu þjónustunnar, að þjónustuveitandi sé útnefndur eða að farið sé út í útboð. Ákvæði 11. gr. felur í sér mikilvægar umbætur á núverandi réttarástandi en er þó ekki í fullu samræmi við niðurstöðu verkefnisnefndar um alþjónustu í pósti sem skilað var til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í september 2017. Í niðurstöðu verkefnisnefndarinnar kom fram að ríkið gæti farið nokkrar leiðir til að fjármagna alþjónustu, en nefndin taldi þó mikilvægt að markaðs- og samkeppnisleiðir væru ætíð reyndar til þrautar við að koma á alþjónustu áður en aðrar leiðir væru farnar. Þar af leiðandi væru leiðir sem kölluðu á opinbert framlag einungis til þrautavara. Í því skyni væri hægt að nýta reynslu fjarskiptasjóðs og Ríkiskaupa við greiningu á markaðsbresti auk skipulagningar og framkvæmdar útboða er varðar fjarskipti utan markaðssvæða. Verkefnisnefndin taldi útboðsleið ákjósanlegri en útnefningu og mótaðist sú afstaða nefndarinnar ekki síst af áherslu á það að koma á virkri samkeppni á póstmarkaði.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar tekur heils hugar undir þessa niðurstöðu nefndarinnar og leggur því til að heimildir til útnefningar verði felldar úr frumvarpinu og í staðinn kveðið nánar á um útboð sem kost við val á veitanda alþjónustu.

Í skýrslu verkefnisnefndarinnar kom jafnframt fram að til að stuðla að samkeppni kæmi til greina að útfæra útboðin þannig að stigagjöf byggðist á fleiri þáttum en eingöngu verði. Þannig yrði hægt að gefa aðilum stig sem ekki eru með markaðsráðandi stöðu á póstmarkaði heldur bjóða t.d. fram nýjungar á sviði póstdreifingar sem gagnast helst í dreifðum og fámennum byggðum. Það yrði þó gert á kostnað ríkisins ef hagkvæmasta boði samkvæmt slíkri stigagjöf yrði tekið en ekki einfaldlega því lægsta. Um slíkt útboð þyrfti ráðherra að setja í reglugerð frekari fyrirmæli um annan undirbúning, skilmála, framkvæmd og fjármögnun eiginlegra útboða. Leggur minni hluti nefndarinnar til að ráðherra verði falið það vald með breytingu á 1. mgr. 41. gr. frumvarpsins.

Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um mikilvægi þess að ákvarðanirnar á vali á leið til að tryggja þjónustu verði byggðar á markaðskönnunum og leggur til breytingu á 11. gr. þess efnis að ráðherra verði gert skylt að framkvæma slíka könnun til að meta á hvaða svæðum landsins sé hagkvæmast að tryggja alþjónustu með útboði.

Telur minni hlutinn þær breytingar sem hér hafa verið raktar til þess fallnar að styrkja enn frekar samkeppni á póstmarkaði og tryggja að ákvarðanir séu opinberar, gagnsæjar og með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Því leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Eins og fyrr sagði rita undir álitið Hanna Katrín Friðriksson og Helga Vala Helgadóttir, og Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, er samþykkur álitinu.