149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega er það hv. þingmanni að einhverju leyti til upplýsingar að viðhorf þeirra sem mynduðu meiri hluta í nefndinni í þessu máli eru misjöfn til ýmissa þeirra álitaefna sem undir eru. Meirihlutafulltrúarnir eru hugsanlega ekki endanlega búnir að komast að niðurstöðu um hvert þeir vilja stefna varðandi þetta.

Þeir taka undir að þörf sé á endurskoðun mannanafnalaga en telja að frumvarpið eins og það liggur hér fyrir sé ekki í raun tilbúið til samþykktar.

Ég get upplýst að ég held þó að meirihlutafulltrúarnir eigi það sameiginlegt í þessu máli, og nú tala ég kannski ekki 100% fyrir munn allra í meiri hlutanum vegna þess að viðhorf manna kunna að vera misjöfn að þessu leyti, að afstaða þeirra ráðist að stórum hluta af áhyggjum vegna íslenskrar tungu og þróunar hennar.

Ég hugsa að ég tali fyrir munn annarra í meiri hlutanum að því leyti að menn telja að breytingarnar sem hér eru lagðar til séu fullróttækar þegar horft er til þeirra þátta.

Ég vona að þetta skýri afstöðu mína að einhverju leyti því að nefnt er í nefndarálitinu að meirihlutafulltrúarnir telji að nafnahefð og nafnafyrirkomulag okkar Íslendinga hafi órofatengsl við íslenska tungu. Það er þekkt og kemur fram í umsögnum margra aðila og kom fram hjá gestum sem mættu á fund varðandi málið að þeir sem vilja standa vörð um íslenska tungu hafa (Forseti hringir.) áhyggjur af því hversu langt þetta frumvarp gengur.